Skip to main content

„Eigi skal gráta Björn bónda.“ Ólöf ríka frá Skarði

„Eigi skal gráta Björn bónda.“ Ólöf ríka frá Skarði - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
24. ágúst 2024 13:00 til 15:00
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

Efnt verður til opins málþings um Ólöfu ríku frá Skarði að Nýp á Skarðsströnd, laugardaginn 24. ágúst kl. 13:00–15:00. Skipuleggjendur málþingsins eru Steinunn Kristjánsdóttir prófessor í fornleifafræði og Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur og er það haldið með stuðningi Ráðstefnusjóðs Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, Uppbyggingarsjóðs Vesturlands og Penna sf. 

Dagskrá

  • 13:00–13:10 Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur setur þingið.
  • 13:10–13:40 Sigríður Hagalín Björnsdóttir rithöfundur: Á þeysireið um fornbréfasafnið – leitin að Ólöfu ríku.
  • 13:40–14:10 Guðjón Th. Erlendsson arkitekt: Skjaldarmerki Ólafar og Björns frá Skarði, og landslag Skarðsættarinnar.
  • 14:10–14:40 Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur: Ólöf ríka og Svalbarðsklæðið
  • Umræður
  • Léttar veitingar að hætti gestgjafanna að Nýp.

Að málþingi loknu verður farið í Skarðskirkju og altarisbríkin þar skoðuð.

Nánar um erindin

  • Sigríður Hagalín Björnsdóttir rithöfundur: Á þeysireið um fornbréfasafnið – leitin að Ólöfu ríku. 
    Sigríður hefur glímt við Ólöfu ríku Loftsdóttur í mörg ár, eða frá því að hún hóf að skrifa skáldsöguna Hamingja þessa heims, sem kom út 2022. Hún segir frá samskiptum þeirra Ólafar, sem hafa vissulega verið nokkuð einhliða, því Ólöf birtist fyrst og fremst í munnmælasögum annars vegar, og nokkrum þyrrkingslegum skjölum í Fornbréfasafninu hins vegar. Ólöf sést þó ekki fyrir og skýtur sífellt upp kolli á ólíklegustu stöðum; sem dagróðrarbátur, draumkona, nunna í Vesturbænum að borða ís í brauðformi. Sigríður er enn að reyna að hafa hendur í hári hennar og kynnast þeirri konu af holdi og blóði sem býr að baki þjóðsagnanna og fornbréfanna. Hún vinnur nú að framhaldi á Hamingju þessa heims, og tekst kannski einhvern tímann að klára það.
  • Guðjón Th. Erlendsson arkitekt: Skjaldarmerki Ólafar og Björns frá Skarði, og landslag Skarðsættarinnar. 
    Guðjón kynnir brot úr yfirstandandi rannsókn sinni á skjaldarmerkjum íslenskra aðalsmanna og kvenna. Þá segir hann frá uppruna og erfðum skjaldarmerkja Skarðshjónanna og kenningum tengdum þeim, allt frá jörlum til íslenska skjaldarmerkisins. Skjaldarmerki miðalda voru vörumerki þeirra tíma og þeim fylgdu réttindi og skyldur sem hafa áhrif enn þann dag í dag. Í lok erindisins ræðir Guðjón stuttlega um landslag og heimsmynd þessa fólks út frá alþjóðaumhverfi Breiðafjarðar og Skarðsjarðarinnar. Gömul kort verða skoðuð og tenging þeirra við gervihnattamyndir nútímans.

  • Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur: Ólöf ríka og Svalbarðsklæðið. Í erindinu fjallar Steinunn um útsaumað altarisklæði frá Svalbarði á Svalbarðsströnd og þá kenningu að það sýni sögu Ólafar ríku. Klæðið var saumað út á tímum hennar en mikil tengsl voru á milli Skarðsverja og Svalberðinga á miðöldum. Þá mun Steinunn segja frá altarisbríkinni í Skarðskirkju en Ólöf kemur fyrir í henni í hlutverki gjafara (e. donator).

Fyrirlesarar eru Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur, Sigríður Hagalín Björnsdóttir rithöfundur og Guðjón Th. Erlendsson arkitekt. Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur setur þingið.

„Eigi skal gráta Björn bónda.“ Ólöf ríka frá Skarði