Mikill áhugi á samstarfi HÍ við kanadíska háskóla
Háskóli Íslands hefur átt í öflugu samstarfi við fjölda háskóla í Kanada undanfarna áratugi og núna í sumar heimsótti Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, nokkra af þessum háskólum. Sumir þeirra tengjast Íslandi og Íslendingum afar sterkum böndum enda á svæðum þar sem Vestur-Íslendingar eru fjölmennir.
Háskólarektor heimsótti t.d. University of British Columbia (UBC) sem nýtur mikillar virðingar samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum en hann er afar fjölmennur háskóli í einstöku umhverfi.
Frá fundi rektors með Hugvísindasviði University of British Columbia í Vancouver en áhugi er á að taka upp nám í íslensku við skólann.
„Það var virkilega gaman að koma þangað en ég kom þangað fyrst fyrir 35 árum. Ég átti fyrst góðan fund með alþjóðasviði UBC en í gildi er mikið nýttur samstarfssamningur á milli HÍ og UBC. Síðan átti ég fund með fólki í hug- og málvísindum, en áhugi er m.a. á að taka upp nám í íslensku við skólann. Á báðum fundum var mikill áhugi á auknu gagnkvæmu samstarfi á milli HÍ og UBC.“
Jón Atli tiltók að unnið yrði sérstaklega áfram með nokkur samstarfsverkefni í framhaldinu milli skólanna tveggja þar á meðal verkefni sem tengjast með beinum hætti Vesturheimsverkefni Háskóla Íslands. Vesturheimsverkefni HÍ snýr að eflingu samstarfs um alþjóðlegar rannsóknir á bókmennta- og menningarsögu íslenskra vesturfara.
Öflug tengls eru milli Íslands og fólks af íslenskum uppruna
Þá fundaði Jón Atli einnig í ferðinni með Dugan O´Neil, aðstoðarrektor vísinda- og nýsköpunar hjá Simon Fraser University (SFU). O´Neil er jafnframt akademískur stjórnandi Surrey-kampusins sem háskólarektor heimsótti. Jón Atli segir að þar sé mikil uppbygging í gangi og spennandi að sjá metnaðinn sem þar ríkir.
„Heimsóknin var mjög góð. Það var afar áhugavert að kynnast skipulagi SFU, heimsækja byggingarnar í Surrey og rannsóknastofu í rafmagnsverkfræði ásamt því að ræða framtíðina og mögulegt samstarf einkum með tilliti til Aurora-háskólanetsins sem Háskóli Íslands hefur leitt um nokkra hríð,“ sagði Háskólarektor.
Frá heimsókninni á Surrey Campus Simon Fraser University. Hér er rektor með Dugan O’Neil, aðstoðarrektor.
Mikil tengls eru milli Íslands og fólks af íslensku bergi sem býr í Vancouver í Kanada en Jóni Atla var hvarvetna vel tekið. Hann flutti t.d. ávarp hjá Íslensk-kanadíska félaginu í British Columbia en þar var að sögn rektors mikill áhugi á starfi Háskóla Íslands og tengslum HÍ við kanadíska háskóla.
Rektor flytur ávarp á vel sóttum fundi hjá íslensk-kanadíska félaginu í British Columbia, Vancouver.
Mikilvægt Vesturheimsverkefni HÍ
Tilurð áðurnefnds Vesturheimsverkefnis HÍ má rekja til stofnunar styrktarsjóðs HÍ í nafni þjóðskáldsins Stephans G. Stephanssonar við opnun Veraldar – húss Vigdísar vorið 2017. Þau Stephan Benediktson, barnabarn Stephans G., og Adriana Benediktson, lögðu til stofnfé sjóðsins. Heather Alda Ireland, barnabarn Guttorms J. Guttormssonar, skálds Nýja Íslands, og William Ireland (1934 ̶ 2023) komu einnig að tilurð sjóðsins. Aðrir helstu stuðningsaðilar sjóðsins hingað til eru þau Donald K. Johnson, Arni Thorsteinson, Oskar Sigvaldason, Susan Rodriguez Abbiati, Paul David Benediktson, Stephan Robert Benediktson og Mooréa Gray. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, lagði sitt lóð á vogarskálarnar á fyrstu stigum söfnunarinnar. Fyrir utan ómetanlegan stuðning afkomenda íslenskra vesturfara við verkefnið hefur stuðningur stjórnvalda á Íslandi sömuleiðis gert gæfumuninn.
Á ferð sinni vestur um haf fundaði háskólarektor einnig í sendiráði Íslands í Ottawa þar sem hann ásamt Hlyni Guðjónssyni sendiherra kynnti Vesturheimsverkefni HÍ fyrir fulltrúum Heritage-ráðuneytis Kanada, með áherslu á það markmið HÍ að tryggja viðvarandi rannsóknir á bókmennta- og menningararfi íslenskra vesturfara í samstarfi við kanadíska háskóla. Gekk þessi fundur mjög vel og sýndu fulltrúar Heritage-ráðuneytisins málinu mikinn áhuga.