Steinunn hlýtur Viðurkenningu Hagþenkis
Steinunn Kristjánsdóttur, prófessor í fornleifafræði við Sagnfræði og heimspekideild Háskóla Íslands, hlaut í gær Viðurkenningu Hagþenkis 2017 fyrir rit sitt „Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir“ en viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni. Sögufélag og Þjóðminjasafn Íslands gáfu bókina út.
Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og kennslugagna hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna 10 höfunda og rit sem þykja framúrskarandi og til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum, ákvarðar tilnefningarnar og hvaða höfundur hlýtur að lokum viðurkenninguna.
Að þessu sinni voru sjö bækur eftir fræðimenn sem starfa við Háskóla Íslands eða tengdar stofnanir tilnefndar til Viðurkenningar Hagþenkis og var Steinunn hlutskörpust sem fyrr segir. Í ályktunarorðum viðurkenningarráðs um bók Steinunnar sagði að þarna væri á ferðinni umfangsmikil og vel útfærð rannsókn sem varpaði nýju ljósi á sögu klausturhalds á Íslandi. „Frásagnarstíll höfundar gefur verkinu aukið gildi.“ Þess má geta að bókin var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna líkt og fyrri bók Steinunnar, Sagan af klaustrinu á Skriðu sem kom út árið 2012.
Steinunn Kristjánsdóttir er prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Hún hefur fengist við rannsóknir víða um land undanfarna áratugi, einkum þó á Austurlandi, og birt um þær greinar og haldið fyrirlestra jafnt hér heima sem erlendis. Frá árinu 2002 hefur Steinunn einbeitt sér að rannsóknum á klausturhaldi hérlendis, fyrst með uppgreftri á rústum Skriðuklausturs í Fljótsdal en síðar með kortlagningu klausturhalds í landinu á miðöldum.
„Ég lít á viðurkenninguna sem staðfestingu þess að efnislegar leifar geti ekki síður en skjöl – eða aðrar heimildir – varpað ljósi á sögu okkar og fortíð. Þetta kann að hljóma sjálfsagt í eyrum margra en það er ekki svo því gjarnan er litið þannig á að það sem ekki hefur verið skráð eða skrifað niður sé hreinlega ekki til. Að bein sjúklings með sárasótt segi minna en skjal um kaup á jörð. Eða eins og að þjóð án ritmenningar eigi sér enga sögu. Í mínum huga segja varðveitt skjöl aðeins hálfa söguna, rétt eins og bein sjúklingsins. Sem fornleifafræðingur vil ég halda því fram að hinar efnislegu leifar – efnismenningin – veiti jafnan upplýsingar um hversdaginn á meðan þær rituðu sýni öðru fremur hvernig lífið og tilveran hefði átt á að vera: hið æskilega líf út frá sjónarhorni þess sem skráði,“ sagði Steinunn m.a. í þakkar ávarpi sínu í gær.
Viðurkenning Hagþenkis felst í árituðu skjali og 1.250.000 kr. verðlaunafé.