Skip to main content
8. júlí 2015

Verkfræðinemar á leið á Silverstone

Verkfræðinemar í liðinu Team Spark við Háskóla Íslands halda utan til Bretlands í vikunni til þess að taka þátt í hinni árlegu alþjóðlegu kappaksturs- og hönnunarkeppni Formula Student sem haldin verður á Silverstone-kappakstursbrautinni dagana 9.-12. júlí. Liðið hyggst fylgja eftir góðum árangri sem það náði í keppninni í fyrra.

Liðið hefur líkt og síðasta ár smíðað rafknúinn kappakstursbíl frá grunni og liggur gríðarmikil vinna að baki honum, vel yfir tíu þúsund vinnustundir. Bílinn sem fengið hefur nafnið TS15 var frumsýndur að viðstöddu fjölmenni á Háskólatorgi í apríl síðastliðnum og hafa öll kerfi verið betrumbætt frá útgáfu síðasta árs að sögn Daníels Freys Hjartarsonar, samskiptastjóra Team Spark. „Þeir eru nánast svart og hvítt. Bílinn er í ár 85 kg léttari en í fyrra og þrefalt kraftmeiri. Við erum með umfangsminna og léttara fjöðrunarkerfi, drifkerfið var endursmíðað frá grunni og í fyrsta skipti bætum við mismunadrifi í bílinn. Við erum einnig í fyrsta skiptið með háspennukerfi, en bílinn keyrir nú á um 600V spennu, miðað við 80V í fyrra. Rafkerfið hefur einnig verið einfaldað talsvert milli ára. Skelin er enn fremur mun léttari og þæginlegri í meðferð en í fyrra,“ segir hann.

Þrátt fyrir að bílinn hafi verið frumsýndur í apríl hafa Team Spark liðar ekki setið auðum höndum síðan þá. „Frá afhjúpun hefur Team Spark hópurinn unnið hörðum höndum að því að gangsetja bílinn og tryggja að bílinn uppfylli allar öryggiskröfur. Einnig hefur mikill tími farið í að gera greiningar og prófanir á ýmsum íhlutum bílsins til þess að betrumbæta hann. Um 20 manna hópur innan Team Spark hefur lagt mikla vinnu í kynningarnar sem við flytjum á Silverstone fyrir dómara. Í heildina flytjum við þrjár kynningar, hönnunarkynningu, kostnaðar- og framleiðslukynningu og markaðskynningu. Í þessum kynningum þurfum við að rökstyðja hönnun og smíði bílsins frá mismunandi sjónarhornum.  Að lokum ber að nefna skipulag ferðarinnar. Það krefst mikils undirbúningsvinnu að fara með 30 manna hóp og kappakstursbíl til útlanda. Það er öflugur hópur hjá okkur búinn að vera skipuleggja ferðina,“ segir Daníel, en töluverð endurnýjun varð á liðinu frá fyrra ári.

Yfir hundrað lið verkfræðinema fra háskólum víðs vegar að úr heiminum taka þátt í Formula Student á Silverstone-brautinni ár hvert og er keppnin því afar hörð. Keppt er í tveimur flokkum, flokki 1 þar sem lið dæmd eru út frá bæði hönnun einstakra hluta bílsins og akstri hans á kappakstursbraut en í flokki 2 eru aðeins hönnun og áætlanir kynntar en ekki keppt í kappakstri. Team Spark keppir í flokki 1 í ár líkt og í fyrra en þar náði það afar góðum árangri og hlaut flest stig allra liða fyrir endurnýjanleika bíls og sérstök verðlaun sem bestu nýliðar í sínum flokki. 

Daníel segir liðið sé fullt af eldmóði og klárt í slaginn. „Við ætlum að bæta árangurinn frá því í fyrra í kynningunum og halda okkar sæti sem umhverfisvænasta lið keppninar. Svo ætlum við að ná lengra í akstursgreinunum heldur en í fyrra, draumurinn er að klára allar akstursþrautirnar og lenda ofarlega í öllum kynningum, þá erum við í góðum málum,“ segir Daníel. 

Háskóli Íslands óskar Team Spark góðs gengis í keppninni á Silverstone.

Fyrir áhugasama má geta þess að í síðasta mánuði sýndi RÚV heimildamynd Stefáns Drengssonar um för Team Spark á Silverstone í fyrra og er hægt að nálgast hana á Sarpinum: http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/team-spark/20150704. Einnig er hægt að fylgjast með Team Spark á vefnum http://www.teamspark.is og á Facebook.

Liðsmenn Team Spark frumsýndu kappakstursbílinn TS15 á Háskólatorgi