Jarðeldur á söndum norðan jökla
Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, fjallar um eldgosið í Nornahrauni/Holuhrauni og framgang þess frá upphafi til dagsins í dag í fyrirlestraröðinni Vísindi á mannamáli. Hverju eldgosi fylgja nýjar uppgötvanir og skilningur. Í erindinu fjallar Ármann um hvernig vísindamenn nýta þekkingu sína og viðbótarupplýsingar sem fást við vöktun eldgosa til að skilja betur afleiðingar þeirra. Sjónum verður einnig beint að stórum hraungosum á Íslandi. Fyrirlesturinn verður þann 17. febrúar kl. 12.10 í Hátíðasal Háskóla Íslands.
Ármann, sem er í hópi þekktustu jarðvísindamanna landsins, hefur ásamt hópi vísindamanna við Jarðvísindastofnun Háskólans og Veðurstofu Íslands staðið í ströngu frá því að gosið í Nornahrauni hófst í lok ágústmánaðar á síðasta ári. Fram hafa farið ítarlegar rannsóknir, m.a. á aðdraganda gossins og útbreiðslu þess og jarðskorpuhreyfingum í tengslum við eldsumbrotin. Gosið er nú þegar orðið stærsta hraungos sem runnið hefur á Íslandi síðan í Skaftáreldum og í erindi sínu mun Ármann fara yfir framgang þess og þá nýju þekkingu sem vísindamenn við háskólann hafa aflað með rannsóknum sínum.
Um Ármann Höskuldsson
Ármann lauk doktorsprófi frá Université Blaise Pascal í Clermont-Ferrand í Frakklandi árið 1992 og hefur m.a. sérhæft sig í eldfjallafræði hafsbotnsins. Hann hefur stundað jarðvísindarannsóknir bæði hér heima og erlendis og kennt eldfjallafræði við Háskóla Íslands allt frá árinu 1999. Ármann hefur starfað sem rannsóknasérfræðingur og svo vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans frá árinu 2004 og var auk þess formaður Jarðfræðafélags Íslands á árunum 2003-2006.
Um fyrirlestraröðina
Vísindi á mannamáli er ný fyrirlestraröð Háskóla Íslands sem hófst haustið 2014 að frumkvæði Lífvísindaseturs og Líffræðistofu Háskóla Íslands. Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig vísindamenn háskólans reyna að afhjúpa leyndardóma náttúrunnar og hvaða þýðingu vísindarannsóknir hafa fyrir daglegt líf fólks.
Erindið er öllum opið meðan húsrúm leyfir.