Skip to main content

Smáforrit auka hljóðskilning

Auður Ævarsdóttir, MS frá Læknadeild

„Notkun spjaldtölva við kennslu hefur stóraukist í leik- og grunnskólum hér á landi. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu, og ört vaxandi tækniþróun, er lítið sem ekkert til af rannsóknum á árangri þjálfunar með gagnvirkri kennslu í formi smáforrita.“

Þetta segir Auður Ævarsdóttir um meistaraprófsrannsókn sem hún vann nýlega í talmeinafræði. Kveikjan að rannsókninni var áhugi Auðar á lestri og undirbúningi fyrir lestrarnám í leikskóla.

„Á leikskólaaldri er lagður mikilvægur grunnur að námi í lestri og ritun þar sem börn öðlast skilning á tilgangi og mikilvægi ritmáls. Í ljósi breyttra tíma og hraðrar tækniþróunar er mjög mikilvægt að skoða vel gagnsemi notkunar á smátækjum og smáforritum við kennslu og undirbúning fyrir læsi.“

Auður segir að smáforritin Lærum og leikum með hljóðin og Froskaleikir Hoppa hafi verið notuð í markvissri kennslu í tveimur leikskólum hér á landi. „Við vildum skoða hvort undirbúningur fyrir læsi með gagnvirkri kennslu, í formi þessara smáforrita, skilaði börnum betur undirbúnum fyrir læsi í grunnskólann.“

Auður Ævarsdóttir

„Í ljósi breyttra tíma og hraðrar tækniþróunar er mjög mikilvægt að skoða vel gagnsemi notkunar á smátækjum og smáforritum við kennslu og undirbúning fyrir læsi.“

Auður Ævarsdóttir

Auður segir að rannsóknin hafi beinst að tveimur hópum, annars vegar að rannsóknarhópi sem kom af leikskólunum tveimur og hafði unnið markvisst með smáforritin tvö. „Til samanburðar var svo hópur barna af þremur leikskólum sem ekki hafði unnið markvisst með þessi smáforrit. Öll börnin gengu hins vegar í skóla þar sem staðlaða lestrarkerfið Leið til læsis var í notkun. Niðurstöður Leiðar til læsis voru svo notaðar til að bera hópana saman.“

Auður segir að Leið til læsis sé fjölþætt stuðningskerfi í lestrarkennslu sem sé hannað af þverfaglegum hópi sérfræðinga. „Stuðningskerfið er byggt á stöðluðum matstækjum sem sýna kennurum og foreldrum barna á yngsta grunnskólastiginu hver staða þeirra er á ólíkum tímum í lestri.“

Niðurstöður í rannsókn Auðar sýndu fram á að börn sem notuðu smáforritin tvö mældust með aukna færni í hljóðkerfis- og hljóðavitund og í bókstafa- og hljóðaþekkingu í lestrarkerfinu Leið til læsis.

„Ekki kom hins vegar fram munur á milli rannsóknarhóps og viðmiðunarhóps á málskilningi og orðaforða.“

Auður segir að þar sem smáforrit séu orðin stór hluti af lífi allra ungra barna sé mikilvægt að bjóða börnum upp á vandað efni á íslensku sem sýnt hefur verið fram á að virkar.

Leiðbeinandi: Sigríður Dóra Magnúsdóttir, aðjunkt við Læknadeild.