Skip to main content

Leyndardómar Öskjuvatns

Ármann Höskuldsson, fræðimaður við Jarðvísindastofnun Háskólans

Árið 1907 lögðu tveir þýskir jarðvísindamenn upp í leiðangur að eldfjallinu Öskju og Öskjuvatni á  Norðausturlandi. Sú ferð varð afdrifarík því að þeir hurfu báðir sporlaust og er talið að þeir hafi  drukknað í vatninu.  

Ármann Höskuldsson

„Botn vatnsins gefur  mikilvægar upplýsingar um þróun öskjunnar frá því  að hún fór að myndast og fram til dagsins í dag.  Enn fremur koma upplýsingarnar sem við öfluðum  í ferðinni til með að nýtast við að meta jarðhita og  þau áhrif sem hann hefur á vatnsbúskapinn“

Ármann Höskuldsson

Haustið 2012, 105 árum síðar, voru íslenskir  jarðvísindamenn á sömu slóðum. „Ástæða  ferðarinnar var margþætt en ekki síst sú  staðreynd að vatnið varð íslaust um miðjan vetur  2011–2012, sem er í hæsta máta óvenjulegt,“  segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur  við Jarðvísindastofnun Háskólans, sem var í hópi  leiðangursmanna.

Hann bendir á að Öskjuvatn verði alla jafna  ekki íslaust fyrr en í lok júní eða byrjun júlí og því  hafi verið ákveðið að kanna ástand stöðuvatnsins og rannsaka botn þess. „Botn vatnsins gefur  mikilvægar upplýsingar um þróun öskjunnar frá því  að hún fór að myndast og fram til dagsins í dag.  Enn fremur koma upplýsingarnar sem við öfluðum  í ferðinni til með að nýtast við að meta jarðhita og  þau áhrif sem hann hefur á vatnsbúskapinn,“ segir  Ármann um rannsóknirnar á þessu næstdýpsta  vatni landsins.

Við mælingar á botni Öskjuvatns nýttu Ármann  og félagar sérútbúinn bát Jarðvísindastofnunar.  Ekki reyndist auðvelt að flytja hann landleiðina  að Öskjuvatni og því var leitað eftir aðstoð þyrlu  Landhelgisgæslunnar við að flytja bátinn á og af vatninu.  

Við rannsóknir sínar á botni Öskjuvatns nýttu  Ármann og félagar svokallaðan fjölgeislamæli  til þess að teikna upp botn vatnsins. „Fyrstu  niðurstöður sýna botn vatnsins í upplausn sem ekki hefur verið fyrir hendi áður. Botninn einkennist  af bröttum og sprungnum hlíðum allt um kring.  Nokkur yngri hraun má sjá flæða inn í öskjuna og  allt niður á botn. Þannig flæðir Bátshraun niður  á 160 metra dýpi. Mesta samfellda dýpi í vatninu  er um 205 m, vestan megin. Við greindum einnig  áður óþekkta gíga í vatninu sjálfu á botninum austan megin og á hringsprungum vestan  megin í vatninu,“ segir Ármann og bætir við að  áframhaldandi rannsóknir á stöðuvatninu séu  fyrirhugaðar sumarið 2013