Gunnhildur Una Jónsdóttir, doktorsnemi við Uppeldis- og menntunarfræðideild
„Ég velti því fyrir mér hvort listir séu hugsaðar sem afþreying eða ákveðin aðferð til að hugsa og vinna, efla gagnrýna hugsun og gefa rými fyrir margbreytileika,“ segir Gunnhildur Una Jónsdóttir, doktorsnemi í listkennslu. Gunnhildur tók áður þátt í rannsóknanetinu CAVIC sem er styrkt af NordForsk og beinist að rannsóknum á nútímalist í námi á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndum.
„Listir eiga erindi við alla og ég vænti þess að niðurstöður rannsóknarinnar komi til með að færa rök fyrir listkennslu með áherslu á upplifun, ásamt því að efla samstarf hefðbundinna menntastofnana við skapandi starfsemi í samfélaginu.“
Gunnhildur lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands og BA-prófi frá Listaháskóla Íslands áður en hún fór í MFA-framhaldsnám í myndlist við Carnegie Mellon-háskóla í Pittsburgh í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. „Í Carnegie Mellon er lögð mikil áhersla á þverfræðilegt nám, sem þýddi að við tókum námskeið í öðrum deildum háskólans, hvort sem það var í bókmenntum eða í verkfræði.“
Gunnhildur Una Jónsdóttir
„Ég velti því fyrir mér hvort listir séu hugsaðar sem afþreying eða ákveðin aðferð til að hugsa og vinna, efla gagnrýna hugsun og gefa rými fyrir margbreytileika.“
Þegar heim var komið sóttist Gunnhildur eftir starfsvettvangi sem tengdist meistaranáminu. „Námið í Bandaríkjunum var mjög rannsóknamiðað sem gaf mér dýrmæta reynslu fyrir doktorsnámið. Fyrst sótti ég um inngöngu með það í huga að kanna þverfræðilegt samstarf á háskólastigi á Íslandi.“
Á þessu stigi snýst rannsókn Gunnhildar um listnám sem á sér stað á óbeinan hátt, þ.e.a.s. utan skóla og þá sér í lagi í tengslum við gestavinnustofur listamanna í fámennum byggðarlögum. „Krakkar í nágrenni við vinnustofur heimsækja listamennina og forvitnast um hvað þar fer fram. Bein samskipti af þessu tagi eru afskaplega dýrmæt fyrir þann sem nemur og mér leikur hugur á að kanna hvernig óbeint nám fléttast inn í
hefðbundið nám.“
Gunnhildur segir fagfólk í menntageiranum almennt mjög meðvitað um að nám er hluti þess að vera í mannlegu samfélagi. „Þar af leiðandi er nám ekki endilega bundið við eitt ákveðið umhverfi eða kennslustofur.“
Leiðbeinandi: Ólafur Páll Jónsson, dósent í heimspeki við Uppeldis- og menntunarfræðideild.