Málstofa Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands
Lögberg
L-101
Málstofa um áhrif nýfallins dóms Mannréttindadómstóls Evrópu um skyldur ríkja varðandi aðgerðir í loftslagsmálum.
Hvað þarf og/eða getur íslenska ríkið gert til að bregðast við dóminum?
Mannréttindastofnun Háskóla Íslands stendur fyrir hádegismálstofu í stofu 101 í Lögbergi, föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 12:00-13:00 um dóm yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu frá 9. apríl síðastliðnum í máli Verein KlimaSeniorinnen Schweiz o.fl. gegn Sviss.
Erindi:
Nýir tímar í loftslagsdómsmálum. Dr. Kári Hólmar Ragnarsson, lektor við Lagadeild HÍ.
Skyldur ríkja í ljósi dóms Verein KlimaSeniorinnen Scweiz o.fl gegn Sviss. Jóna Þórey Pétursdóttir, héraðsdómslögmaður.
Eru fyrirstöður framundan? Nokkrar vangaveltur um eignarrétt og praktísk réttarfarsleg atriði. Víðir Smári Petersen, dósent við Lagadeild HÍ.
Niðurstaða dómstólsins var m.a. sú að 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu tæki til réttar einstaklinga til virkrar verndar stjórnvalda gegn alvarlegum áhrifum loftslagsbreytinga á líf, heilsu og lífsgæði. Með því að uppfylla ekki skyldur sínar til að grípa til fullnægjandi aðgerða til að takast á við loftslagsbreytingar hefði svissneska ríkið brotið gegn 8. gr. sáttmálans. Ennfremur taldi dómstóllinn að svissneska ríkið hefði brotið gegn 1. mgr. 6. gr. sáttmálans um rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.