Skip to main content

Íslendingur í Englaveldi

Íslendingur í Englaveldi - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
7. nóvember 2024 16:00 til 17:00
Hvar 

Árnagarður

Stofa 303

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Sveinn Máni Jóhannesson, nýdoktor við Sagnfræðistofnun HÍ, flytur erindi í málstofu Sagnfræðistofnunar í hugmynda- og vísindasögu sem hann nefnir „Íslendingur í Englaveldi: Félagslegur darwinismi, kynþáttastríð og endalok þjóðríkisins um aldamótin 1900“. 

Haldið í stofu 303 í Árnagarði, fimmtudaginn 7. nóvember kl. 16:00-17:00. Verið öll velkomin.

Um fyrirlesturinn

Í erindinu verður fjallað um hugmyndir Jóns Ólafssonar ritstjóra (1850–1916) um alþjóðakerfið á tímum örra hnattrænna breytinga við lok nítjándu aldar. Þvert á viðteknar hugmyndir um línuleg umskipti frá heimsveldum til þjóðríkja taldi Jón að þjóðunum hefði mistekist að stjórna sér sjálfar. Að hans mati væru ný stór heimsveldi, byggð á kynþætti, að leysa þjóðríkin af hólmi. Í erindinu verða færð rök fyrir því að Jón hafi byggt á hugmyndum úr sarpi engilsaxneskra hugmyndasmiða beggja vegna Atlantsála (Englaveldi, e. Angloworld) en áhrif þeirra hugmynda utan hins hins enskumælandi heims hefur ekki verið könnuð áður. Talsmenn Englaveldis hömpuðu uppgangi, og meintum yfirburðum, Bandaríkjanna og Bretaveldis á heimsvísu. Jón tók jafnvel undir ákall um formlega sameiningu þeirra í hnattrænt sambandsveldi eftir bandarískri forskrift. Jón kynnti þessa umræðu ekki aðeins fyrir íslenskumælandi lesendum í Kanada, Bandaríkjunum og á Íslandi, heldur endurmótaði hann hugmyndirnar með skírskotun til smærri þjóða. Þó að hann hafi ekki verið eini talsmaður hugmynda um engilsaxneskt heimsveldi á Íslandi verða færð rök fyrir því að Jón hafi fyrstur Íslendinga beitt hugtökum úr ranni félagslegs darwinisma og „vísindalegrar” kynþáttahyggju með skipulegum hætti. Talsmenn Englaveldis höfðu áður nýtt sér Ísland sem sögulegt dæmi um yfirburði germanska forfeðra engilsaxa. Niðurstaða Jóns var sú að Íslendingar, sem sýnishorn af hinum upphaflega kynþætti, hefðu jafnframt sérstöku hlutverki að gegna í samtímanum við að tryggja framgang Englaveldis í hnattrænu kynþáttastríði gegn Rússaveldi um yfirráð yfir gresjum, sléttum og öðrum innlöndum heimsins.

Sveinn Máni Jóhannesson, nýdoktor við Sagnfræðistofnun HÍ.

Íslendingur í Englaveldi