Skip to main content

Heiða Árnadóttir og Gunnar Gunnarsson á Háskólatónleikum

Heiða Árnadóttir og Gunnar Gunnarsson á Háskólatónleikum - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
20. mars 2024 12:15 til 13:00
Hvar 

Edda

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fyrstu Háskólatónleikarnir á þessu ári verða í Eddu og fara fram miðvikudaginn 20. mars kl. 12.15. Heiða Árnadóttir og Gunnar Gunnarsson munu þá flytja efni af plötu sinni Tunglið og ég sem inniheldur tónlist eftir hinn mikilvirka Frakka Michel Legrand við íslenska texta. Aðgangur er ókeypis og tónleikunum verður einnig streymt

Michel Legrand var óhemju afkastamikill á sinni tíð og er hvað þekktastur fyrir kvikmyndatónspor sín en einnig stök lög sem hlutu framgang á þeim listmiðli. Þau Heiða og Gunnar uppgötvuðu sameiginlega hrifningu sína á Legrand og hófu að flytja tónlist hans saman á tónleikum og þá kviknaði sú hugmynd að snara textunum yfir á íslensku. Loks var ákveðið að rúlla herlegheitunum „inn á band“ og útkoman er hrífandi svo það sé sagt. Efniviðnum er sýnd mikil virðing og lágstemmd túlkun Heiðu og Gunnars nær heimahöfn með glæsibrag þar sem næmni og ríkt listrænt innsæi ræður för.

Tónleikarnir fara fram miðvikudaginn 20. mars og hefjast leikar kl. 12.15. Staður er Edda sem  staðsett er á Arngrímsgötu/Suðurgötu. Tónleikunum verður einnig streymt og hægt verður að horfa á þá síðar í upptökuformi. Hvort sem þú ert í borginni, úti á landi eða úti í heimi getur þú notið hinna fögru tóna Háskólatónleikaraðarinnar og upplifað stemninguna í skólanum. Allir velkomnir á staðinn og aðgangur gjaldfrjáls.

Slóð á streymið má finna hér 

Um Háskólatónleika

Háskólatónleikaröðin hóf göngu sína með nýjum áherslum haustið 2020 og hafa listamenn af alls kyns toga troðið upp. Tónleikunum hefur öllum verið streymt með glæsibrag og má nálgast upptökur hér.  

Umsjónarmaður tónleikaraðarinnar og listrænn stjórnandi er dr. Arnar Eggert Thoroddsen. Segist hann styðjast við slagorðið „Háskóli fyrir alla - Tónlist fyrir alla“ og er myndast við að endurspegla það í dagskránni.

Fyrstu Háskólatónleikarnir á þessu ári verða í Eddu og fara fram miðvikudaginn 20. mars kl. 12.15. Heiða Árnadóttir og Gunnar Gunnarsson munu þá flytja efni af plötu sinni Tunglið og ég sem inniheldur tónlist eftir hinn mikilvirka Frakka Michel Legrand við íslenska texta. 

Heiða Árnadóttir og Gunnar Gunnarsson á Háskólatónleikum