Skip to main content

Brotunum raðað saman. Rabbað um ævi Sigríðar Pálsdóttur

Brotunum raðað saman. Rabbað um ævi Sigríðar Pálsdóttur - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
4. desember 2024 12:00 til 13:00
Hvar 

Þjóðminjasafn, fyrirlestrasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og bókaútgáfan Bjartur kynna:

Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur flytur opinn fyrirlestur um bók sína Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands við Suðurgötu þann 4. desember 2024, kl. 12-13. Verið öll velkomin.

Í fyrirlestrinum mun Erla Hulda sagnfræðingur ræða um rannsókn sína og ritun á ævi Sigríðar Pálsdóttur, en nýlega kom út hjá bókaútgáfunni Bjarti bókin Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871. Bókin byggir á þeim 250 bréfum sem Sigríður skrifaði bróður sínum frá því hún var átta ára gömul árið 1817 til þess hún dó tæplega 62 ára árið 1871. Hún giftist tvisvar og varð tvisvar ekkja, eignaðist sex dætur en þrjár lifðu til fullorðinsára. Að sumu leyti er ævi Sigríðar venjuleg því bréfin lýsa hinu hversdagslega í lífi hennar en einnig ólgandi ást, dramatík og dauða.

Erla Hulda mun segja frá helstu áskorunum við það að fjalla um líf konu sem rennur eftir öðrum brautum en ævisögur karla og hin svokallaða stórsaga nítjándu aldar, einnig hvernig hún notar sendibréfin, og aðrar heimildir, til að safna saman lífi Sigríðar og gera úr því samfellda sögu. Boðið verður upp á spurningar og umræður í lokin. 

Erla Hulda Halldórsdóttir er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hún er sérfræðingur í kvenna- og kynjasögu á nítjándu og tuttugustu öld. Erla Hulda hefur birt fjölda greina um rannsóknir sínar hér á landi og erlendis. Hún er einn höfunda bókarinnar Konur sem kjósa. Aldarsaga (2020) og árið 2023 kom út bók hennar Ég er þinn elskari. Bréf Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur 1825–1832.

Fyrirlesturinn er styrktur af sjóði um samfélagslega virkni við HÍ.

Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur flytur opinn fyrirlestur um bók sína Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns.

Brotunum raðað saman. Rabbað um ævi Sigríðar Pálsdóttur