Um tvö hundruð nemendur við Háskóla Íslands fara í skiptinám um allan heim á hverju ári. Hér má lesa nokkrar reynslusögur frá fyrrum skiptinemum sem getur verið gagnlegt að skoða ef stefnt er á skiptinám. Alexander - skiptinemi við Stockholm University Hvers vegna ákvaðstu að fara í skiptinám? Það hafði svo sem blundað í mér allt frá því í menntaskóla að fara í skiptinám en ég lét aldrei verða af því. Eftir á að hyggja er ég samt ánægður að hafa frekar farið í háskóla því það er mun ódýrara (kostar í raun ekki neitt, þú þarft bara að halda þér uppi – og getur fengið styrk!). Maður getur líka fengið allt námið úti metið svo þetta hefur engin áhrif á námsframvindu. Mér fannst spennandi að fá þetta tækifæri til að fara til útlanda, prófa eitthvað nýtt og standa á eigin fótum. Ég hafði líka heyrt marga skiptinema segja frá tímanum sínum úti og aldrei rekist á nokkurn mann sem sá eftir ákvörðuninni. Ég þóttist vita að maður fengi tækifæri til að búa með og kynnast fullt af fólki frá ólíkum löndum og spreyta sig á að læra betur önnur tungumál. Það varð líka raunin. Hvað var dýrmætast við að fara í skiptinámið? Ég held að það sem standi upp úr séu vinirnir sem maður kynntist. Það er alveg ótrúlegt hvað maður á auðvelt með að mynda tengsl þegar maður býr jafn náið með svona mörgum sem allir eiga það sameiginlegt til að byrja með að þekkja engan í mörg hundruð kílómetra radíus. Maður bókstaflega neyðist til að vera opinn fyrir nýju fólki og fyrir vikið verður hópurinn náinn mjög fljótt þó dvölin hafi ekki verið löng. Hefur dvöl í öðru landi og í annarri menningu haft áhrif á þig og þá hvernig? Klárlega. Svíþjóð er svo sem ekki mest framandi land í heimi fyrir okkur Íslendinga, en það er engu að síður alltaf eitthvað sem er ólíkt, sérstaklega þegar maður býr í stórborg eins og Stokkhólmi. Ég kunni smá sænsku fyrir en tókst að bæta hana töluvert með því að passa mig að reyna alltaf að nota hana í daglegu tali, taka sænskukúrsa og nokkra stærðfræðiáfanga á sænsku. Ég umgekkst síðan langmest aðra skiptinema og fyrir vikið fær maður innsýn í þeirra menningu og hefðir. Ég hélt upp á jólin á þýska vísu, fékk aðeins að spreyta mig á ítalskri eldamennsku hjá ítölskum félaga mínum, og fleira. Til viðbótar áttar maður sig betur á hvað þykir óvenjulegt við íslenska menningu og siði þegar maður getur varla kynnt sig áður en fólk er farið að spyrja út í Ísland og hvernig við búum. Áhugi útlendinga á Íslandi kemur mér alltaf jafnmikið á óvart. Telur þú að skiptinámið hafi aukið framtíðarmöguleika þína á vinnumarkaði eða í frekara námi, ef já þá á hvaða hátt? Engin spurning. Það hefur góð áhrif á mann að þurfa að standa á eigin fótum í landi þar sem maður þekkir engan og þarf að kynnast staðháttum og eignast vini upp á nýtt. Ég held að ég sé sjálfstæðari nú en fyrir ári og það mun vafalaust nýtast í starfi, námi og öðru sem ég tek mér fyrir hendur í framtíðinni. Tungumálakunnáttan kemur líka að góðum notum. Ég er mun betri í sænsku núna en áður, þó ég sé ekki alveg reiprennandi, og meira að segja enskan hefur haft gott af skiptináminu þó hún hafi nú verið fín fyrir. Það verður áreynslulausara að tala tungumál þegar maður gerir það á hverjum degi í ár. Síðan sakar ekki að eiga gott tengslanet af vinum og kunningjum um alla álfuna, og raunar víðar. Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér! Myndir þú ráðleggja öðrum að fara í skiptinám? Ef já, hvers vegna? Hiklaust. Ég hef aldrei hitt neinn sem sér eftir því að fara í skiptinám og það er ástæða fyrir því. Þetta er mögnuð lífsreynsla sem ég mun búa að alla tíð og ég hef kynnst fólki sem ég mun vonandi halda sambandi við um ókomin ár. Anna Margrét - skiptinemi við University of Barcelona Hvers vegna ákvaðstu að fara í skiptinám? Til þess að kynnast nýju fólki og upplifa öðruvísi menningu en á Íslandi. Hvað var dýrmætast við að fara í skiptinámið? Allar áskoranirnar sem komu upp á meðan skiptináminu stóð styrktu mig mikið sem karakter. Hefur dvöl í öðru landi og í annarri menningu haft áhrif á þig og þá hvernig? Já, það hefur vakið áhuga minn á að taka framhaldsnám í útlöndum. Myndir þú ráðleggja öðrum að fara í skiptinám? Ef já, hvers vegna? Já, þetta er eitt af því skemmtilegasta sem ég hef gert. Þó svo að það sé stórt skref að flytja til annars lands þá er það 100% þess virði. Brynja - skiptinemi við Korea University Hvers vegna ákvaðstu að fara í skiptinám? Mér hefur alltaf fundist mjög gaman að ferðast og var þetta því mjög heillandi. Að fá að búa á einhverjum framandi stað til lengri tíma og fá að upplifa menninguna betur heldur en bara að koma sem túristi. Að fá að kynnast skemmtilegu fólki sem koma frá öllum heimshornum fannst mér líka áhugavert. Svo hafði ég heyrt frá öðrum nemendum sem höfðu verið skiptinemar hversu góð reynsla þetta hafi verið og hversu skemmtilegt þeim fannst. Svo er ég í stjórnmálafræði og með áhuga á alþjóðastjórnmálum og alþjóðasamskiptum, því fannst mér þetta kjörið tækifæri fyrir reynsluna og einnig til þess að fá dýpri þekkingu þegar kemur að því sviði. Hvað var dýrmætast við að fara í skiptinámið? Það hlýtur að vera tengslin og samböndin sem mynduðust og yndislegir vinir sem ég eignaðist. Félagslífið fyrir skiptinema í skólanum sem ég fór í var líka alveg frábært. Minningarnar sem ég hef og í raun hversu ótrúlega skemmtilegt þetta var allt. Ég myndi segja að þetta hafi líka verið mjög þroskandi fyrir mig og ég kem heim reynslunni ríkari og sem sjálfstæðari manneskja. Einnig hef ég myndað varanleg tengsl við Suður-Kóreu og mun hiklaust fara þangað aftur einn daginn. Hefur dvöl í öðru landi og í annarri menningu haft áhrif á þig og þá hvernig? Það var mjög skemmtileg og góð reynsla að vera í samfélagi sem er svo ólíkt Íslandi. Þetta er að vissu leyti mjög þroskandi og getur aukið umburðarlyndi gagnvart öðrum. Áhugavert að geta séð hvernig aðrir lifa og gaman þegar maður kemur heim og getur séð Ísland með öðrum augum. Þegar maður er skiptinemi þá kynnist maður ekki bara menningunni landinu sem maður er í því það eru svo margir aðrir skiptinemar sem koma úr öllum heimshornum og getur maður því fengið að kynnast þeirra menningu smá í gegnum þá. Það að vera svo langt frá Íslandi með engan með sér er einnig mjög þroskandi og eykur á sjálfstæði, maður þarf að redda öllu sjálfur. Telur þú að skiptinámið hafi aukið framtíðarmöguleika þína á vinnumarkaði eða í frekara námi, ef já þá á hvaða hátt? Ég myndi segja að þetta lítur vel út á ferilskránni, sýnir að maður er sjálfstæður og getur farið í krefjandi aðstæður og aðlagast. Getur sýnt að maður er ekki hræddur við að fara út fyrir þægindarammann og getur kynnst nýju fólki. Þetta verður líka jákvætt á umsóknum fyrir framhaldsnám, ef ég fer í eitthvað eins og alþjóðasamskipti. Einnig þá hefur þetta opnað augun mín fyrir tækifærum á framhaldsnámi í Suður-Kóreu, þá er kostur ef ég stefni aftur þangað að ég hafi verið þar áður sem skiptinemi. Myndir þú ráðleggja öðrum að fara í skiptinám? Ef já, hvers vegna? Ég myndi hiklaust ráðleggja öðrum að fara í skiptinám. Í fyrsta lagi þá er þetta svo ótrúlega gaman. Það er svo mikið af skemmtilegu fólki sem þú getur kynnst og áhugaverðar upplifanir. Þetta er líka frábært tækifæri fyrir þá sem eru í námi eins og stjórnmálafræði, eykur mikið skilning á öðrum samfélögum og gaman að geta talað við annað fólk um stjórnmál og allt sem því tengist. Gott að komast út fyrir Ísland og upplifa eitthvað öðruvísi. Einnig þá er allt annað að vera skiptinemi og búa í landi í einhvern tíma heldur en bara að koma í stuttan tíma sem túristi. Færð allt aðra sýn á landið og samfélagið. Guðbjörg - skiptinemi við Sciences Po Paris Hvers vegna ákvaðstu að fara í skiptinám? Vegna þess að mig langaði til þess að upplifa það að læra alþjóðasamskipti annars staðar en á Íslandi. Mig langaði til þess að nýta tækifærið að fara út, kynnast nýju fólki og fá að æfa mig í frönsku. Hvað var dýrmætast við að fara í skiptinámið? Allir þeir vinir sem ég kynntist. Líka að fá tækifæri að læra hluti sem ekki er hægt á Íslandi. Hefur dvöl í öðru landi og í annarri menningu haft áhrif á þig og þá hvernig? Já, ég hef lært að njóta þess betur að taka mér tíma í hádeginu og á kvöldin að borða og fá mér hlé frá lærdóminum en þess á milli vinna vel. Frakkar gera mikið út á að borða saman og taka sér tíma í það sem skiptir máli. Telur þú að skiptinámið hafi aukið framtíðarmöguleika þína á vinnumarkaði eða í frekara námi, ef já þá á hvaða hátt? Já, því það sýnir að maður þorir að standa á eigin fótum og líka að maður hefur reynslu sem aðrir hafa mögulega ekki. Myndir þú ráðleggja öðrum að fara í skiptinám? Ef já, hvers vegna? Algjörlega. Það er svo hollt að búa í öðru landi, kynnast annarri menningu og tungu. Ekki má gleyma að læra viðfangsefnið frá öðru sjónarhorni. Tómas - skiptinemi við University of Minnesota Hvers vegna ákvaðstu að fara í skiptinám? Mig hafði alltaf langað að prófa að búa í útlöndum, sérstaklega Bandaríkjunum, til að kynnast nýjum menningarheimum og nýju fólki. Einnig vildi ég upplifa nám utan Íslands til að sjá öðruvísi sjónarhorn og kennsluaðferðir. Hvað var dýrmætast við að fara í skiptinámið? Fólkið sem ég kynntist og nýju vinirnir sem ég eignaðist. Hefur dvöl í öðru landi og í annarri menningu haft áhrif á þig og þá hvernig? Það hefur haft mikil jákvæð áhrif á mig. Í rauninni finnst mér að nánast allir mínir eiginleikar hafi orðið betri við skiptinámið. Ég er betri nemandi og læri meira, ég er miklu opnari fyrir nýjum og öðruvísi hlutum, ég hugsa meira um heilsuna, ég er betri í samskiptum, það er bara allt betra. Telur þú að skiptinámið hafi aukið framtíðarmöguleika þína á vinnumarkaði eða í frekara námi, ef já þá á hvaða hátt? Já, ég held það. Bæði hjálpar þetta mikið við að greina mig frá öðrum á vinnumarkaðnum, t.d. með því að sýna að ég er ekki hræddur við að takast á við nýjar og framandi aðstæður, og ég persónulega er miklu betur undirbúinn fyrir vinnumarkaðinn eða frekara nám vegna skiptinámsins. Myndir þú ráðleggja öðrum að fara í skiptinám? Ef já, hvers vegna? 100%, án alls efa, allan daginn, já! Fyrir utan það að kynnast nýju landi, menningu og fólki, sem væri í sjálfu sér alveg nóg, þá víkkar þetta sjóndeildarhringinn manns svo mikið og maður lærir svo mikið um sjálfan sig, námið, heiminn og allt að það er nánast ómögulegt að koma ekki úr skiptinámi betri en þú fórst í það.Þorkell - skiptinemi við Technical University of Munchen Hvers vegna ákvaðstu að fara í skiptinám? Ég ákvað að fara í skiptinám til að brjóta aðeins upp námið mitt. Ég hef alltaf verið upp í VR-2 að læra og eftir 3 annir þá var ég bara tilbúinn að breyta um umhverfi. Einnig er Erasmus+ að bjóða upp á flotta styrki til að hjálpa manni að fara út. Þetta er flott tækifæri til að búa í Evrópu, búa einn og prófa nýja hluti. Maður er kominn í svo mikinn þægindaramma hérna heima, búin að myndast svo mikil rútína að tíminn var bara byrjaður að fljúga. Það var mjög fínt að fara í smá ævintýri. Hvað var dýrmætast við að fara í skiptinámið? Sennilega reynslan við að búa einn. Ég hef alltaf búið hjá foreldrum mínum og þetta breikkaði sjóndeildarhringinn minn varðandi hversu mikil vinna það er að sjá um heimilið, þvo fötin, elda matinn og bara að sjá um alla þessu litlu hversdagslegu hluti. Svo var ómetanlegt að fá að búa í glænýju umhverfi í stórborg, kynnast nýju fólki og fara smá út fyrir þægindaramman sem maður er búin að koma sér fyrir hérna heima. Hefur dvöl í öðru landi og í annarri menningu haft áhrif á þig og þá hvernig? Það hefur aðallega haft þau áhrif að maður lærir að meta það sem maður hefur heima. Maður lærir að meta stuðninginn frá fjölskyldunni og vinunum. Það er ekkert sjálfgefið og oft gerir maður sér ekki grein fyrir því hvað maður hefur fyrr en maður hefur misst það. Þetta var ótrúlega góð pása frá hversdagsleikanum á Íslandi og það var gaman að geta fjarlægt sig smá frá Íslandi og fá síðan viljan til að koma aftur. Maður þurfti að vera opin, tilbúin að eignast nýja vini og aðlagast nýju umhverfi. Auðvitað er það erfitt en það var mjög góð reynsla og ég held að það hafi haft jákvæð félagsleg áhrif á mig og maður þroskaðist þarna úti Telur þú að skiptinámið hafi aukið framtíðarmöguleika þína á vinnumarkaði eða í frekara námi, ef já þá á hvaða hátt? Já ég tel að það muni hafa góð áhrif á umsóknir mínar fyrir vinnu og framhaldsnám. Ég held að það sé kostur að geta bent á að maður vildi leggja smá á sig til að öðlast reynslu og prófa nýja hluti. Það sýnir fram á frumkvæði og vilja. Maður sér tækifæri, og nýtir sér það. Myndir þú ráðleggja öðrum að fara í skiptinám? Ef já, hvers vegna? Já ég myndi ráðleggja öðrum að fara. Vegna þess, að það er í boði að flytja til útlanda að læra í flottum skólum, fá það allt metið inn í námið þitt heima og þú færð fjárhagslegan styrk. Þetta er bara negla ef þú spyrð mig. Af hverju myndi ég ekki vilja gera þetta. Maður er í háskóla, ungur og hefur litlar skuldbindingar. Ef þú vilt fá tækifæri að búa í útlöndum og borga lítið fyrir það þá verður maður að stökkva á svona tækifæri. Þórdís - skiptinemi við Macquaire University Hvers vegna ákvaðstu að fara í skiptinám? Ég hef alltaf verið með mikla ævintýraþrá. Þegar ég var í menntaskóla langaði mig í skiptinám til Ástralíu en það gekk ekki upp það árið og ég endaði í Bandaríkjunum. Plan B var alltaf að fara til Ástralíu í skiptinám í háskóla og ég lét verða af því. Hvað var dýrmætast við að fara í skiptinámið? Það er fólkið sem maður kynnist víðsvegar að úr heiminum ásamt ýmsum ævintýrum sem maður lendir í. Það er algjör snilld að geta nýtt skiptinám í að ferðast sem mest með nýjum ferðafélögum. Hefur dvöl í öðru landi og í annarri menningu haft áhrif á þig og þá hvernig? Já klárlega, að fara í skiptinám opnar augu manns fyrir ótrúlegustu hlutum sem maður kannski áttaði sig ekki á áður. Ég er opnari, ófeimnari og frekar tilbúin í áskoranir. Telur þú að skiptinámið hafi aukið framtíðarmöguleika þína á vinnumarkaði eða í frekara námi, ef já þá á hvaða hátt? Já, þegar maður býr á litla Íslandi þar sem margir eru kannski að útskrifast úr svipuðu námi þá er gott að hafa gert eitthvað öðruvísi til að skera sig úr hópnum. Einnig þarf maður að glíma við áskoranir einn á báti í skiptináminu sem gerir það að verkum að maður er sjálfstæðari o.s.frv. Myndir þú ráðleggja öðrum að fara í skiptinám? Ef já, hvers vegna? Klárlega. Mér finnst að það ætti að vera skylda fyrir alla að fara einu sinni í skiptinám. Það er margt sem maður lærir og upplifir sem er erfitt að útskýra. Það er enginn að fara að tapa á því að fara í skiptinám. Það hafa allir gott af því að brjóta upp hversdagsleikann og skella sér í smá ævintýri. facebooklinkedintwitter