Gervibarkaígræðsla ekki vísindalegt misferli
Stjórnendur Karólínsku stofnunarinnar hafa komist að þeirri niðurstöðu að dr. Paolo Macchiarini, fyrrverandi gistiprófessor við stofnunina, hafi ekki gerst sekur um vísindalegt misferli í tengslum við aðgerð þar sem plastbarki var græddur í mann. Tómas Guðbjartsson, prófessor í skurðlækningum við Háskóla Íslands, var meðal þeirra sem komu að aðgerðinni og var meðhöfundur vísindagreinar um málið sem birtist í hinu virta tímariti Lancet.
Aðgerðin sem um ræðir vakti mikla athygli árið 2011 en í henni var plastbarki baðaður stofnfrumum græddur í Erítreumanninn Andemariam T. Beyene sem var á þeim tíma nemandi við Háskóla Íslands og glímdi við banvænt krabbamein í hálsi. Tómas, sem var læknir Beyenes, tók þátt í aðgerðinni sem fram fór á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi.
Beyene lést snemma árs 2014.
Um mitt ár 2014 lögðu fjórir læknar við Karólíska sjúkrahúsið fram kvörtun á hendur dr. Macchiarini og sökuðu hann um vísindalegt misferli í tengslum við aðgerðina og birtingu vísindaniðurstaðna tengda henni. Í hönd fór fram ítarleg rannsókn innan Karólínsku stofnunarinnar undir forystu Anders Hamsten, rektors stofnunarinnar, þar sem Macchiarini og samstarfsmönnum, þar á meðal Tómasi, gafst kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og leggja fram gögn í málinu.
Að lokinni ítarlegri rannsókn komst Hamsten að þeirri niðurstöðu að Macchiarini hefði ekki gerst sekur um vísindalegt misferli né heldur aðrir sem að vísindagreinum komu. Tekið er fram í skýrslunni hversu mikilvæg gögn Tómasar og Óskars Einarssonar læknis, sem einnig kom að málinu, voru til að hrekja þær röngu fullyrðingar sem ákæran byggðist á og einnig að meðferð sjúklingsins hafi verið fagmannleg af hendi íslensku læknanna, bæði fyrir og eftir aðgerðina.