Skip to main content
3. desember 2024

Samkenndarskortur hefur neikvæð heilsufarsleg áhrif

Samkenndarskortur hefur neikvæð heilsufarsleg áhrif - á vefsíðu Háskóla Íslands

Endurmenntun Háskóla Íslands býður upp á námskeiðið Að huga að öðrum án þess að tapa sjálfum sér í janúar. Kennarinn er Sólveig Kjærnested, sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði. Áhugi Sólveigar á sálfræði kviknaði í sögutímum þegar hún lærði um styrjaldir og þá mannlega þáttinn í kringum stríð. „Stríðið leiddi mig í að velta fyrir mér með hvað það væri sem drifi fólk áfram í að valda skaða og hvernig hægt er að lifa með því eftir á og að sama skapi hvernig fólk sem verður fyrir skaða lifir af. Sá áhugi hafði áhrif á ákvörðun mína um að læra sálfræði og verða sálfræðingur.“

Ógnarkerfi, drifkerfi og sefkerfi

Á námskeiðinu er meðal annars fjallað um tilfinningakerfin þrjú og hvernig best er að ná jafnvægi á milli þeirra. Samkenndarmiðuð meðferð eða compassion focus therapy (CFT) snýst um að mannskepnan sé með að minnsta kosti þrjár tegundir tilfinningastjórnkerfa: ógnarkerfið, drifkerfið og sefkerfið.

Sólveig segir að tilgangur ógnarkerfisins sé að vera á varðbergi gagnvart mögulegri ógn og hættu sem sé mikilvægt fyrir allar lífverur að hafa til að passa upp á öryggi og að verða ekki hafnað. „Þetta kerfi virkjar t.d. berjast, flýja, frjósa viðbragðið okkar (e. fight, flight, freeze). Drifkerfið er í raun það sem drífur okkur áfram í að gera hluti sem skiptir okkur máli, t.d. ná einhverjum árangri, mennta okkur, byggja upp heimili o.s.frv. Þegar við náum þessum markmiðum finnum við fyrir töluverðri ánægju. Ef við náum þeim hins vegar ekki getur það leitt að sér vanlíðan. Því getur verið áskorun í þessu kerfi að finna fyrir nægjusemi.“

Sefkerfið tengist svo öryggis- og tengslakerfinu okkar. Í því kerfi finnum við fyrir ró, ást, öryggi og erum í góðum tengslum við okkur sjálf og aðra.

„Lífsins áskorun er sennilega að reyna að finna sitt jafnvægi á milli þessara kerfa. Jafnvægið í þessum kerfum er talið hafa áhrif á velferð okkar. Því er mikilvægt að átta sig á hvernig tilfinningakerfið hjá hverjum og einum lítur út og hvað er í hverju kerfi fyrir sig.“

Samkennd hjálpar í krefjandi aðstæðum

Í námskeiðslýsingu kemur meðal annars fram að samkennd geti hjálpað til við að takast á við krefjandi verkefni lífsins. Við báðum Sólveigu um að lýsa þessu aðeins og nefna dæmi. „Ein skilgreining er að samkennd felur í sér færni til að tileinka sér vakandi vitund til að taka eftir þjáningu bæði hjá okkur sjálfum og öðrum með einlægan vilja til að draga úr eða koma í veg fyrir þjáninguna. Samkennd felur ekki í sér að losna við erfiðleika heldur horfast í augu við að lífið felur í sér fullt af þjáningafullum atburðum. Við þurfum að hafa getu til að finna og þola við í óþægilegum tilfinningum. Til þess að geta tekist á við krefjandi verkefni lífsins á hjálplegan hátt þarf að geta gengist við og tekið eftir því sem er krefjandi. Við þurfum einnig kjark til að gangast við erfiðleikum og oftar en ekki líka kjark til að bregðast við með hjálplegum hætti þótt það sé erfitt. Lykilspurning í samkennd í eigin garð er að spyrja sig: Hvers þarfnast ég akkúrat núna til að draga úr þjáningunni minni, og svarið við þeirri spurningu breytist eftir því hvert samhengið er.“

Mjög mannlegt sé að forðast það sem er óþægilegt og því hætti okkur mannfólkinu stundum til að gera ekki það sem þarf að gera og jafnvel ekki gera okkur grein fyrir hvað hafi áhrif á okkur. „Því getur þetta reynst mjög erfitt. Þess vegna má í raun segja að til þess að samkennd geti kviknað þá þarf þjáning að vera til staðar.“

Munur á samkennd og samhygð

Fólk hefur mismunandi getu eða styrkleika til að sýna samkennd. Við spurðum því Sólveigu hvort fólk sem getur auðveldlega sýnt samkennd sé í meiri hættu en annað með að ganga nærri sér varðandi neikvæð heilsufarsleg áhrif.

„Fræðin benda til að svo sé ekki. Sýnt hefur verið fram á að samkenndarskortur hafi neikvæð heilsufarsleg áhrif. En hér þurfum við að aðgreina samkennd og samhygð. Bæði Paul Gilbert og Kristín Neff, sem eru sérhæfð í samkenndarfræðum, hafa bent á að vanlíðan og erfiðleikar sem við finnum fyrir gagnvart vanlíðan annarra er vegna mikillar samhygðar sem fólk finnur gagnvart öðrum. Í samhygðinni getum við upplifað, upp að ákveðnu magni, þjáningu annarra eins og hún væri okkar eigin því ákveðnar sársaukastöðvar virkjast. Aftur á móti í samkenndinni aðgreinum við þjáningu annarra frá okkar og getum á sama tíma sýnt mikinn skilning og virkjað umhyggjukerfið okkar.“

Umhyggjukerfið sé tengt umbunarkerfi heilans og geti því dregið úr streitu og neikvæðum heilsufarslegum áhrifum. Sýnt hafi verið fram á að skömm, sektarkennd, upplifaður tímaskortur og að sjá ekki það sammannlega séu hindranir í að sýna samkennd. „Einnig tel ég að þegar bilið á milli ábyrgðar og getu er mikið t.d. inni á vinnustöðum, jafnvel mikill óskýrleiki, geti það haft áhrif á getu til að sýna samkennd.“

Samkennd snýst ekki um að vera bara „næs“

Spurð um skilgreiningu á hvað samkennd er og hvað hún er ekki segir Sólveig að samkennd sé næmni til að skynja og skilja þjáningar annarra með ásetningi um að vilja draga úr þjáningunni. „Samkennd felur bæði í sér visku og kjark, kjarkur án visku birtist gjarnan sem fífldirfska og viska án kjarks kemur sennilega ekki að góðum notum. Samkennd snýst ekki um að vera bara „næs“. Ein myndlíking sem mér finnst lýsandi er t.d. ef þú ert með tannpínu, þá felur samkenndin í sér að fara til tannlæknis og gera það sem þarf að gera til að draga úr sársaukanum þótt það sé sársaukafullt. Ekki bara að stinga höfðinu í sandinn.“

Þá virki samkennd tengslakerfið og feli þess vegna í sér að við erum tengd við það sem er að eiga sér stað og viðbrögð okkar taka mið að því að vera styðjandi. Samkennd sé bæði tilfinningalegt og hugrænt ferli.

Hvernig er hægt að efla samkennd, bæði persónulega og í hópum, t.d. á vinnustöðum?

„Hægt er að skoða og efla samkennd í eigin garð, í garð annarra og að þiggja samkennd frá öðrum. Allir þessir þrír þættir geta verið ólíkir. Okkur gæti t.d. þótt auðveldara að sýna öðrum samkennd heldur en að þiggja samkennd frá öðrum eða sýna samkennd í eigin garð og svo framvegis.“

Sólveig bætir við að einstaklingur geti sjálfur eflt samkennd með því að tileinka sér ákveðin viðhorf sem fela m.a. í sér að hugsa um að allir séu að gera sitt besta, auka skilning á mannlegri hegðun og ætla öðrum ekki eitthvað illt. Einnig að efla kjark sinn til að geta rætt og gert erfiða hluti þegar þess þarf þótt löngunin til að forðast það sé sterk. „Þá þarf viðkomandi að átta sig á hverjar eigin þarfir eru, geta sett þær í orð og fundið hvernig og hvort sé hægt að verða við þeim. Gott er að tileinka sér góðvild, sjá það sem er sammannlegt og nota núvitund.“

Sýna mildi og skilning í stað þess að marínera okkur í sjálfsgagnrýni

Þá sé mikilvægt að vera vakandi fyrir því hvenær við erum að bregðast við í vörn út frá skynjaðir ógn og hvenær við erum að bregðast við út frá öryggi og tengslakerfinu. „Hindranir og ótti gagnvart samkennd getur verið áhrifaþáttur í samskiptum og haft þau áhrif að sá sem reynir að sýna samkennd fær ákveðna mótstöðu. Þá er mikilvægt að minna sig á það sem ég nefni hér að ofan og taka hlutum ekki of persónulega, sýna mildi og skilning þegar um mistök eru að ræða í stað þess að marínera okkur í sjálfsgagnrýni eða dæmandi afstöðu gagnvart öðrum. Það er líka mikilvægt að passa upp á og næra gleðina.“

Hins vegar, þegar um vinnustað sé að ræða skipti einnig miklu máli að umhverfið styðji við menningu og viðhorf sem nærir samkennd frekar en dragi úr henni. „Við erum öll saman á þessari plánetu að sækjast eftir hamingju og minni sársauka.“

Allar nánari upplýsingar og skráning með því að smella hér.

Sólveig Kjærnested