Skip to main content

Landnám og framandi náttúruöfl

Landnám og framandi náttúruöfl - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
24. október 2024 16:00 til 17:00
Hvar 

Árnagarður

Stofa 303

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor emeritus í eðlisfræði og vísindasögu við Háskóla Íslands, flytur erindi í málstofu Sagnfræðistofnunar í hugmynda- og vísindasögu sem hann nefnir Landnám og framandi náttúruöfl. 

Haldið í stofu 303 í Árnagarði, fimmtudaginn 24. október kl. 16:00-17:00. Verið öll velkomin.

Um fyrirlesturinn

Landnemar á Íslandi í öndverðu þurftu að takast á við ýmiss konar náttúruöfl sem voru þeim framandi miðað við fyrri bústaði. Fyrsta og kannski erfiðasta viðfangsefnið fólst í því að komast með viðunandi öryggi yfir Norður-Atlantshafið, sem er eitt torfærasta og vindasamasta hafsvæði jarðarinnar og var auk þess nær óþekkt þegar landnám var að hefjast. Í fyrstu var einkum farin svonefnd eyjaleið þar sem Hjaltland, Orkneyjar og Færeyjar komu við sögu eftir atvikum. Síðar komust menn upp á lagið með að sigla þvert yfir hafið án landsýnar á leiðinni, en studdust þá við önnur teikn náttúrunnar, svo sem sólarhæð, ferðir fugla og sjávardýra og svo framvegis. Einnig þurfti nægilega stór og öflug skip til landnámsferða og fornleifar sýna að þau voru að koma til sögu um svipað leyti og landnámið og upphaf byggðar hér. 

 

Náttúrufar á Íslandi hefur einnig komið landnemum á óvart, hvort sem þeir komu frá Noregi, öðrum Norðurlöndum eða frá Bretlandseyjum. Nytjar af skógi voru hér miklu fábreyttari en í fyrri heimalöndum, sumur stutt, veðurfar annað, byggingarefni allt önnur og endingarminni, skilyrði til búfjárhalds önnur, kornrækt miklu erfiðari og þannig mætti lengi telja. Við þetta bættust svo fyrirbæri sem landnemar höfðu aldrei kynnst áður, svo sem jarðskjálftar og eldgos, sem hljóta að hafa vakið verulegan ótta í fyrstu.

Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor emeritus í eðlisfræði og vísindasögu.

Landnám og framandi náttúruöfl