Skip to main content

Doktorsvörn í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild

Doktorsvörn í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
1. nóvember 2024 9:00 til 12:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 1. nóvember 2024 ver Anna Þóra Hrólfsdóttir doktorsritgerð sína í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Bætt nýting, varðveisla og gæði brúnþörunga. Improved utilization, preservation, and quality of brown seaweed.

Andmælendur eru dr. Susan Løvstad Holdt, dósent við Matvælastofnun Danska tækniháskólans,DTU, og dr. Marthe Jordbrekk Blikra, vísindamaður við norsku matvælarannsóknarstofnunina Nofima.

Umsjónarkennari var María Guðjónsdóttir og leiðbeinendur auk hennar voru Hildur Inga Sveinsdóttir, lektor, og  Sigurjón Arason, prófessor emeritus. Auk þeirra sat Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, prófessor, í doktorsnefnd.

Ólöf Guðný Geirsdóttir, prófessor ogforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 9.00.

Ágrip

Þrátt fyrir gífurlega aukningu í stórþörungaframleiðslu á síðustu áratugum eru þeir enn frekar vannýtt auðlind í Evrópu. Hins vegar hefur áhugi á stórþörungum aukist verulega í Evrópu undanfarin ár og spáð hefur verið að framleiðslan gæti aukist gríðarlega næstu áratugi. Með aukinni framleiðslu stórþörunga er mikilvægt að fullnýta, varðveita og meðhöndla lífmassann á viðeigandi hátt til að hámarka gæði afurðarinnar. Því var markmið rannsóknarinnar að kanna og bæta virðiskeðjur valinna brúnþörunga, með áherslu á fullnýtingu hráefnis í mjölvinnslu úr klóþangi, varðveislu og geymsluþol á ræktuðum beltisþara og marinkjarna, og meta nýtingu fjöllitrófsmyndgreiningartækni (MSI) til að meta gæði stórþörunga innan iðnaðarins. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna tækifæri í því að auka verðmæti stórþörunga með bættum framleiðsluferlum. Enn fremur benda niðurstöðurnar til þess að sýring gæti hentað vel sem varðveisluaðferð fyrir ræktaða brúnþörunga og að MSI gæti verið notuð til gæðamats á stórþörungum innan iðnaðarins.

Abstract

Despite the significant increase in seaweed production in the last decades, seaweed remains a fairly underutilised resource in Europe. However, the interest in seaweed has recently grown in Europe, with predictions indicating that seaweed production could expand significantly in the next few decades. With the increased production of seaweed, it is crucial to fully utilise the biomass, prioritise its stabilisation, and use good manufacturing practices to ensure the quality and safety of the product. Therefore, the aim of the study was to explore and enhance the studied seaweed value chains, focusing on full utilisation during seaweed meal processing of Ascophyllum nodosum, preservation of cultivated Alaria esculenta and Saccharina latissima, and assessment of the use of multispectral imaging (MSI) as a quality control technology within the seaweed industry. The results of the study show opportunities to increase the value of the harvested biomass by changing the production processes. Furthermore, the results suggest that acid preservation could be a valuable preservation method for cultivated brown seaweed biomass and that multispectral imaging techniques could be used as a quality control tool within the seaweed industry.

Um doktorsefnið

Anna Þóra Hrólfsdóttir er fædd árið 1992 í Reykjavík. Hún útskrifaðist af náttúrufræðibraut frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla árið 2012 og lauk B.Sc. prófi í næringarfræði frá Háskóla Íslands árið 2016.  Anna hóf feril sinn í matvælafræði árið 2019 við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands með skráningu í meistaranám sem hún lauk vorið 2021. Eftir það innritaðist hún í doktorsnám við deildina. Samhliða doktorsnáminu sinnti Anna bæði kennslu og leiðbeiningu nemenda við Háskóla Íslands. Foreldrar Önnu eru Sigríður Sturlaugsdóttir og Hrólfur Þórarinsson. Anna er í sambúð með Sindra Víðissyni og saman eiga þau tvær dætur, Rebekku Rún Sindradóttur (7 ára) og Aþenu Sif Sindradóttur (6 ára).

Anna Þóra Hrólfsdóttir ver doktorsritgerð sína í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands föstudaginn 1. nóvember

Doktorsvörn í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild