Kynningar- og samtalsfundur um MEMM - Menntun, móttaka og menning
Stakkahlíð / Háteigsvegur
Stofa K-206
Við bjóðum ykkur velkomin á sérstakan kynningar- og samtalsfund um þróunarverkefnið, MEMM – Menntun, Móttaka og Menning um samræmdan stuðning vegna barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, þann 11. september kl. 15-16 í stofu K-206 í Stakkahlíð.
MEMM er tímabundið þróunarverkefni sem Mennta- og barnamálaráðuneytið, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hafa stofnað til. Verkefnið nær til leikskóla, grunnskóla, framhaldskóla og frístundastarfs um land allt og er unnið í víðtæku samstarfi helstu stofnana, sveitafélaga og félagssamtaka yfir skólaárin 2024-2025 og 2025-2026.
Um hvað snýst MEMM?
MEMM miðar að því að koma á samræmdu verklagi um móttöku, menntun og inngildingu barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn á landsvísu. Verkefnið leggur áherslu á:
- Íslensku sem annað mál
- Inngildingu og fjölmenningarlega menntun
- Læsisráðgjöf og stöðumat
- Foreldrasamstarf
- Menntun og starfsþróun kennara
- Þróun og dreifingu námsgagna
Sérstakur samhæfingarstjóri, Fríða Bjarney Jónsdóttir, hefur verið ráðin til að leiða þetta mikilvæga verkefni með faglegri yfirsýn og stuðningi frá sérfræðingum.
Markmið fundarins er að kynna þróunarverkefnið, stöðu þess í dag og framtíðarsýn og skapa samtal um áskoranir og tækifæri í málaflokknum innan MVS, koma auga á helstu hindranir, hvaða áherslur mætti samhæfa betur sérstaklega í ljósi menntunar og starfsþróunar kennara og starfsfólks og hvað er brýnast í stuðningi við vettvanginn.
Donata Honkowicz Bukowska, sérfræðingur hjá Mennta- og barnamálaráðuneyti og Fríða Bjarney Jónsdóttir, samhæfingarstjóri MEMM munu kynna verkefnið á fundinum.
Fundarstýra er Karen Rut Gísladóttir, fulltrúi MVS í samhæfingarteymi MEMM verkefnisins.
Við hvetjum öll sem málefnið varðar til að mæta og taka þátt í þessu mikilvæga samtali.
Kaffi og léttar veitingar í boði.
.