Alþjóðleg ráðstefna Irigaray Circle
Oddi
Irigaray Circle, samtök sérfræðinga á sviði heimspeki Luce Irigaray, halda alþjóðlega ráðstefnu við Háskóla Íslands 6.-9. júní. Luce Irigaray er meðal þekktustu femínísku heimspekinga samtímans. Heimspeki hennar um kynin og kynjamismun spannar vítt svið og hefur haft áhrif á margar greinar innan hug- og félagsvísinda, lista og hönnunar svo nokkuð sé nefnt. Irigaray hefur fullyrt að spurningin um kynjamismun sé ein af stærstu spurningum samtímans vegna þess hve hugmyndir um kynin gegnsýra menningu og samfélag. Ein megin hugmynd hennar er sú að hið kvenlæga hafi ekki fengið þá tjáningu sem því beri vegna karlhverfu sögunnar sem hefur haldið kynjunum í andstöðu hvert við annað. Ein megin tilgangur fræða hennar er að leita leiða til þess að kynin geti mæst á nýjum forsendum í virðingu og kærleika. Jafnframt hefur bæling hins kvenlæga leitt til þess að viðhorf okkar til okkar sjálfra, umhverfis, jarðar og annarra þurfa að breytast. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Touching the World“ sem beinir einmitt athygli að því hvernig við snertum og erum snortin af heimi.
Luce Irigaray.