Voru þetta alltaf sömu karlarnir sem kusu?
Árnagarður
Stofa 201
Hrafnkell Lárusson, nýdoktor við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, heldur fyrirlestur í Málstofu í félags- og hagsögu sem nefnist „Voru þetta alltaf sömu karlarnir sem kusu? Rýnt í kjörgögn frá landshöfðingjatímanum.“
Málstofan er í stofu 201 í Árnagarði þriðjudaginn 9. apríl kl. 16:00-17:00. Verið öll velkomin.
Um fyrirlesturinn
Á landshöfðingjatímanum (1874-1903) var átta sinnum boðað til almennra kosninga til Alþingis, en auk þeirra voru haldnar allnokkrar aukakosningar. Kosningaréttur var takmarkaður við um 10% landsmanna (eingöngu karla) og kjörsókn var jafnan fremur dræm, einkum á fyrri helmingi landshöfðingjatímans.
Þessi fyrirlestur byggir á yfirstandandi nýdoktorsrannsókn. Í honum verður rannsóknin kynnt og leitast við, með hliðsjón af kjörskrám og atkvæðaskrá frá tímabilinu, að greina þátttöku í kosningum út frá félagslegri stöðu kjósenda og öðrum breytum sem líklegar voru til að hafa áhrif á kjörsókn.
Hrafnkell Lárusson.