Skip to main content

Úr hverju dó fólk í móðuharðindum?

Úr hverju dó fólk í móðuharðindum? - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
12. mars 2024 16:00 til 17:00
Hvar 

Árnagarður

Stofa 311

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, heldur fyrirlestur í Málstofu í félags- og hagsögu sem nefnist „„Féll hér meiri ólyfjan á jörðina en frá megi segja“. Úr hverju dó fólk í móðuharðindum?“

Málstofan er í stofu 311 í Árnagarði þriðjudaginn 12. mars kl. 16:00-17:00.

Um fyrirlesturinn: 

Í lýsingu sinni á Skaftáreldum, sem almennt hefur verið nefnd „Eldritið“, segir Jón Steingrímsson frá ástandinu í austursveitum Vestur-Skaftafellssýslu í lok júnímánaðar 1783: „Þessa afliðna viku sem hinar 2 undanförnu féll hér meiri ólyfjan á jörðina en frá megi segja, bæði af öskunni, hárunum, brennisteins- og saltpétursregninu, sem aldrei var fyrir utan sand með í bland.“ Hér lýsir eldklerkurinn því hvernig mengun frá Skaftáreldum, og þá bæði í formi gass og flúormettaðrar ösku, lagðist yfir byggðina og drap gróður og skepnur, auk þess að valda mannfólkinu ýmiss konar þjáningu. „Ólyktin af loftinu, þang-beisk og ýldukennd í marga daga, að margir, sérdeilis brjóstveikir, máttu ei né gátu dregið andann af loftinu meir en til hálfs, einkanlega, þá sól var eigi á lofti, svo það var stærsta forundran, að nokkur manneskja skyldi lífi halda viku lengur …“. Hefðbundnar kenningar um harðindin hafa almennt gengið út á að þau hafi fyrst og fremst stafað af fæðuskorti vegna dauða búfjár og bjargarskorts af þeim sökum. Á síðustu árum hafa fræðimenn aftur á móti, m.a. með tilvísun í ummæli Jóns Steingrímssonar, lagt áherslu á að flúor- og gasmengun hafi drepið fólk unnvörpum á árunum eftir 1783 og þá bæði á Íslandi og í Evrópu. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir rannsókn okkar Claudiu Wieners, lektors við Sjávar- og lofthjúpsrannsóknarstofnunina við Utrecht-háskóla, á orsökum mannfalls á árunum eftir Skaftárelda þar sem við reynum að svara því hvort þessar nýju kenningar eigi við rök að styðjast.

Guðmundur Hálfdanarson prófessor.

Úr hverju dó fólk í móðuharðindum?