Mögulegt að minnka stærsta óvissuþáttinn í losun koltvísýrings á Íslandi
Mikil óvissa hefur ríkt hérlendis um magn koltvísýrings sem losnar frá jarðvegi á ári hverju en ný mælitæki gætu stórminnkað þessa óvissu. Ólafur Sigmar Andrésson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, er verkefnisstjóri í rannsóknar- og tækniúrlausnarverkefni þar sem slíkt mælitæki er þróað en það gæti veitt verðmætar upplýsingar um svokallaða jarðvegsöndun á Íslandi. Tækið er bæði einfaldara og margfalt ódýrara en þau tæki sem notast hefur verið við í slíkum mælingum fram að þessu.
Auknar skuldbindingar í loftslagsmálum
Ísland er aðili að fjölda alþjóðasamninga um umhverfisvernd, sem meðal annars ná til magns sem má losa af koltvísýringi á landinu. Þetta magn er takmarkað á heimsvísu svo að ekki verði óafturkræfar skemmdir á lífríki Jarðar.
Þegar rætt er um losun mengandi efna í andrúmsloftið hugsa eflaust margir til bíla, flugvéla og annarra ferðamáta eða stóriðju. Hins vegar er hérlendis töluvert magn koltvísýrings og annarra skaðlegra efna sem losna út í andrúmsloftið frá örverum í jörðu við það sem kallast jarðvegsöndun.
Losun á bilinu 2-60 milljónir tonna á ári
Það hefur reynst sérstaklega flókið að mæla jarðvegsöndun, einkum þó á Íslandi. Erfitt hefur verið að yfirfæra erlend fræðigögn á þær aðstæður sem hér eru því íslenskur jarðvegur er nokkuð frábrugðinn jarðvegi í löndunum í kringum okkur. Þetta má aðallega rekja til mikillar virkni eldfjalla og mikils magns kolefnis í jarðvegi. Búnaður til mælinga hefur einnig verið nokkuð óhentugur en hvert mælitæki getur kostað um 5 milljónir íslenskra króna og mæla þau flest tiltölulega takmarkað flatarmál í senn eða einungis hluta úr fermetra.
„Ef við við horfum í heild á losun á gróðurhúsalofttegundum er það jarðvegsöndun eða losun úr jarðvegi sem mest óvissa er um á Íslandi. Árið 2016 var talað um að losun frá jarðvegi væri á bilinu 2-60 milljónir tonna á ári sem sýnir hvað óvissan hefur verið mikil“ sagði Ólafur Sigmar.
Þessi knýjandi þörf fyrir betri upplýsingar úr mælingum og auknar tækniframfarir á þessu sviði urðu kveikjan að rannsóknar- og tækniúrlausnarverkefni sem hefur það að markmiði að gera slík mælitæki bæði ódýrari og hentugri.
Nýr búnaður getur nýst breiðum hópi
Ólafur Sigmar hefur ásamt nemum við Háskóla Íslands og í samstarfi við Tækniskólann og Tæknifræðisetur HÍ útbúið mælitæki sem er margfalt ódýrari en sá búnaður sem hefur verið í notkun hérlendis auk þess sem hann er hentugri í notkun.
Þessi nýi tækjabúnaður getur nýst breiðum hópi, allt frá áhugamönnum um jarðvegsöndun og loftslagsmál til stærri rannsóknaraðila á borð við Landgræðsluna og Landbúnaðarháskóla Íslands.
„Lykilatriði að ná saman fólki með mismunandi þekkingu“
Að sögn Ólafs hafa tækin verið prófuð í mælingum til styttri tíma með góðum árangri og bindur hann vonir við að jafnvel verði hægt að gera nýja skilvirkari útgáfu af tækinu. „Við höfum sýnt að það er hægt að gera ódýr tæki sem mæla vel í stuttan tíma en nú er næsta verkefni að útbúa tæki sem geta verið að allt árið og safna upplýsingum í rauntíma frá stóru svæði.“
Með þessu væri mögulegt að sjá heildarlosun landsvæða yfir árið og fylgjast með sveiflum milli ára og árstíða. Þetta segir Ólafur að verði vonandi hægt að prófa næsta sumar.
Lykilinn að þessum góða árangri er samstarfið milli Háskóla Íslands og Tæknifræðiseturs, Tækniskólans, Landbúnaðarháskólans og Landgræðslunnar að sögn Ólafs. „Lykilatriði að ná saman fólki með mismunandi þekkingu“.
Höfundur greinar: Ólöf Rún Erlendsdóttir, meistaranemi í blaða- og fréttamennsku.