Álftartalningar
Rannsóknasetrið á Snæfellsnesi hefur sinnt talningu á álftum á helstu fjörðum og vogum milli Stykkishólms og Álftafjarðar. Svæðið sem um ræðir má sjá á loftmyndinni fyrir neðan. Álftafjörður er lykilsvæði fyrir álftir á Íslandi og er markmið rannsóknarinnar að kanna m.a. hversu stóran hluta ársins álftir dvelja á svæðinu og hvaða svæði þær nota helst. Mikið hefur verið rætt um að álftum hafi fjölgað síðustu ár, en rannsóknir hefur skort fyrir mörg svæði á landinu, m.a. Álftafjörð.
Fyrsta talningin var 6. nóvember 2008, þá var farið um svæðið og skoðaðar aðstæður ásamt því að telja álftirnar á svæðinu. Í þessari fyrstu talningu sáust 179 fuglar. Eftir fyrstu talninguna hefur verið farið í talningu á um 2ja vikna fresti eftir því sem veður og aðstæður leyfa. Eins og sjá má á línuritinu hér fyrir neðan þá varð mikil fækkun á fuglum eftir fyrstu talningu. Væntanlega má rekja það til þess að það kólnaði töluvert á talningarsvæðinu eftir fyrstu talningu sem endurspeglaðist í um helmingsfækkun á heildarfjölda fugla.