Skip to main content

Stofnvistfræði dílaskarfs

Árið 1975 taldi Arnþór Garðarsson dílaskarfshreiður úr lofti, á Breiðafirði og á Faxaflóa.  Þessi talning var endurtekin á nokkurra ára fresti (1983-84, 1989) þar til að í ljós kom mikil fækkun milli talninga árið 1994.  Frá þeim tíma taldi Arnþór dílaskarfa árlega og varð vitni að mikilli fjölgun þeirra 1994-2008. (Arnþór Garðarsson 2008. Dílaskarfsbyggðir 1994-2008. Bliki 29: 1-10.)

Frá og með 2009 hafa talningar á dílaskarfi verið kostaðar af Rannsóknasetrinu og Jón Einar Jónsson orðinn verkefnisstjóri þeirra. Verkefnið hefur alla tíð verið kostað að langstærstum hluta af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Arnþór hefur séð um framkvæmd talninga sem fyrr ásamt Úlfari Henningssyni flugmanni, sem rekur Garðaflug ehf.

Varpstaðir dílaskarfs eru þekktir um 70 talsins á Breiðafirði og Faxaflóa, en aðeins 30-40 eru notaðir árlega.  Þeir sjást vel úr lofti eins og myndin, sem er eftir Arnþór, sýnir ágætlega.

Talningar á aldurshlutföllum af landi hófust 1998 og hafa verið framkvæmdar tvisvar á ári síðan. Í september er talið hlutfall unga frá sumrinu, sem eru hvítir á kviðinn á meðan fullorðni fuglinn er al svartur. Í febrúar er þessi talning endurtekin, nema að þá eru fullorðnu fuglarnir aðgreindir í alsvarta, ókynþroska fugla annars vegar og varpfugla í fullum skrúða (gráar fjaðrir á höfði og lærblettur).  Þessar talningar eru gerðar á Norðulandi Vestra, Snæfellsnesi og Suðvesturlandi.

Þó er sem mesti móðurinn sé runnin af skörfunum sjálfum því eftir stanslausa fjölgun fram til 2010 stóð fjöldi þeirra nokkuð í stað síðustu tvö ár. Nýir varpstaðir hafa þó fundist, s.s. í Kollafirði á Ströndum 2011 og Grautarskeri í Breiðafirði 2012. Þá komust gamlir Breiðfirskir varpstaðir á blað eftir hlé: Innra Stangarsker með 87 hreiður og Innra Hagadrápsker með 36 hreiður.