Skip to main content
14. maí 2019

Þrjátíu hljóta doktorsstyrki við HÍ – stuðningur við doktorsnema aukinn umtalsvert 

""

Nýjar tegundir náttúruvár sem rekja má til loftslagsbreytinga, íþyngjandi dagsyfja, ójöfnuður, huldufreyjur, norræn-kínversk norðurslóðasamskipti, áhrif skólaumhverfis á andlega líðan unglinga á Norðurlöndum og erfðafræði urriða á Íslandi eru meðal þeirra rannsóknarviðfangsefna sem hljóta styrk úr doktorssjóðum Háskóla Íslands í ár. Þrjátíu verkefni eru styrkt að þessu sinni en bæði styrkupphæð og annar stuðningur við doktorsnema hefur verið aukinn umtalsvert.

Alls bárust doktorssjóðum Háskóla Íslands 144 umsóknir í ár. Rannsóknasjóður Háskóla Íslands veitti 21 styrk en Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands veitti níu. Styrkþegar koma frá öllum fræðasviðum skólans og snerta rannsóknir þeirra jafn fjölbreytt svið og kynjafræði, lögfræði, sálfræði, læknisfræði, frönsk fræði, bókmenntafræði, menntavísindi, umhverfis- og auðlindafræði, jarðfræði og eðlisfræði, svo dæmi séu nefnd.

Meðal markmiða í stefnu Háskóla Íslands, HÍ21 er að efla umgjörð doktorsnáms og það hefur nú m.a. verið gert með því að hækka upphæð einstakra styrkja úr röskum 330 þúsund krónum á mánuði í 425 þúsund krónur. Auk þess fylgir nú nýjum styrkjum rekstrarfé við upphaf styrkveitingar úr nýstofnsettum Doktorssjóði Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Þeir stúdentar sem nú fá framfærslustyrk úr doktorssjóðum Háskólans fá þannig til viðbótar 300 þúsund krónur í ráðstöfunarfé sem unnt verður að nota við rekstur doktorsverkefnisins. Áður hafði ferðastyrkjum doktorsnema verið fjölgað töluvert og upphæð þeirra hækkuð til að auðvelda doktorsnemum að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi. Þessu til viðbótar er verið að innleiða sérstakt rafrænt umsýslukerfi fyrir doktorsnámið og þá hefur svokölluðum verkfærakistum, þar sem doktorsnemum og leiðbeinendum þeirra er boðin margvísleg fræðsla sem tengist náminu á ýmsan hátt, verið fjölgað til muna. Með þessu er enn sterkari stoðum rennt undir doktorsnám og rannsóknir við skólann.

„Uppbygging rannsókna og doktorsnáms við Háskóla Íslands undanfarna tvo áratugi hefur komið skólanum í fremstu röð alþjóðlegra rannsóknaháskóla,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. „Í samstarfi við leiðbeinendur sína leggja doktorsnemar sitt af mörkum til þekkingarleitar alþjóðasamfélagsins og taka virkan þátt í að efla Háskólann sem alþjóðlega rannsóknastofnun. Með þessari nýju hækkun doktorsstyrkja og sérstöku rekstrarfé treystum við enn frekar sókn Háskóla Íslands sem er öllu samfélaginu til góða enda vitum við að þekkingin er gjaldmiðill framtíðarinnar.“

Háskóli Íslands óskar nýjum styrkþegum og leiðbeinendum til hamingju með styrkinn og velfarnaðar í þeirri vinnu sem fram undan er.

Yfirlit yfir styrkþega ársins 2019 má nálgast á vef Háskóla Íslands.

frá Háskólatorgi