Mikilvægt að samþætta félagsleg gildi og afreksþjálfun í íþróttum
„Árangur íslenskra íþróttaliða byggist á ýmsu, það er ekki eitt einfalt svar við því en það má nefna að skipulag íþróttastarfs á Íslandi er nánast einstakt. Við erum með hverfisíþróttafélög og náum að samþætta tvo hluti í íþróttastarfinu, annars vegar uppeldisgildin sem byggja upp karakter og hins vegar afreksmálin. Þetta sameinast í íþróttum hjá okkur, í barna- og unglingaíþróttum líka, og það er mjög sjaldgæft í íþróttaheiminum.“
Þetta segir Viðar Halldórsson, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands. Hann mun ásamt þeim Gunnari Valgeirssyni, prófessor við California State háskólann Bandaríkjunum, og Stefáni Arnarsyni, íþróttastjóra KR og þjálfara nýkrýndra Íslandsmeistara Fram í handknattleik kvenna, flytja erindi á sjötta og síðasta fundinum í fundaröð Háskóla Íslands, Best fyrir börnin. Fundurinn fer fram mánudaginn 28. maí kl. 12-13.15 í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskólans. Allir eru velkomnir á fundinn á mánudag meðan húsrúm leyfir en honum verður jafnframt streymt á Netinu.
Yfirskrift fundarins er „Hvernig höldum við gleðinni í íþróttum á tímum afreksmennsku?“ og eins og nafnið bendir til verður leitað svara við því hvernig hægt er að tryggja áfram félagslegt og uppeldislegt gildi íþrótta fyrir börn og ungmenni og stuðla um leið að áframhaldandi góðum árangri íslenskra íþróttamanna.
Viðar bendir á að þessir þættir, sterk félagsleg og uppeldisleg gildi í íþróttastarfinu og gríðargóður árangur íslensks íþróttafólks á alþjóðavísu, ásamt #metoo-byltingunni þýði að íþróttir á Íslandi standa á ákveðnum tímamótum. Þróun þessara þátta á næstu árum muni hafa mikil áhrif á upplifun og reynslu barna og ungmenna af íþróttastarfinu í framtíðinni.
„Ég ætla í erindi mínu að fara yfir skipulag, áherslur og stöðuna almennt í íþróttastarfi á Íslandi í dag. Einnig mun ég fjalla um þær stóru áskoranir sem íþróttastarfið stendur frammi fyrir og þau tækifæri sem í þeim felast,“ segir Viðar sem um árabil hefur rannsakað hvað skýrir góðan árangur íslenskra íþróttamanna á alþjóðlegum mótum. Má þar nefna árangur landsliða í knattspyrnu, handknattleik, hópfimleikum og körfuknattleik.
Áhyggjur af atvinnuvæðingu leiksins
Aðspurður hvaða áskoranir Íslendingar standi frammi fyrir nú segir hann Ísland komið á stóra svið íþróttanna og verði þar af leiðandi fyrir meiri áhrifum af því sem er að gerast í erlendum atvinnumannaíþróttum. „Menn hafa miklar áhyggjur af atvinnuvæðingu leiksins í kringum okkur þar sem verið er að atvinnuvæða leik barna og unglinga meira og meira sem hefur alls konar ósækilegar afleiðingar í för með sér. Við þurfum að skoða hvernig við ætlum að hafa íþróttastarfið í framtíðinni og við þurfum að vera á varðbergi vegna þess að það eru alls konar óæskilegar áherslur sem geta laumast inn í íþróttastarfið og tekið svo yfir smátt og smátt. Við þurfum að setja okkur stefnu: Hvar viljum við vera, hvernig viljum við gera þetta og hvað við erum að gera vel. Við þurfum að hlúa að því sem kom okkur á þann stað sem við erum á í dag.“
Hann bendir jafnframt á að #metoo-byltingin hafi opnað augu fólks fyrir því að ýmislegt sé óunnið innan íþróttahreyfingarinnar sem oft einkennist af miklum karlakúltúr. „Það eru mikil tækifæri til að rétta hlut kvenna enn þá betur. Við stöndum okkur ekki nógu vel þrátt fyrir að við séum kannski framar en margar aðrar þjóðir. Það liggur gífurlegt svigrúm til þess að bæta stöðu kvenna innan íþrótta og vera til fyrirmyndar í íþróttaheiminum,“ segir Viðar.
Með Viðar í mánudag verður þeir Gunnar Valgeirsson, prófessor við California State háskólann, sem mun draga upp mynd af íþróttastarfi í Bandaríkjunum til samanburðar við Ísland en Gunnar hefur um árabil búið þar vestra og meðal annars sinnt kennslu og skrifum um félagsfræði bandarískra íþrótta. Þá mun Stefán Arnarson, íþróttastjóri KR og þjálfari nýkrýndra Íslandsmeistara Fram í handknattleik kvenna, segja frá því hvernig hann samræmir uppeldis- og afreksáherslur í þjálfun sinni. „Stefán er gríðarlega sigursæll, hefur unnið sex Íslandsmeistaratitla á síðustu níu árum og fjölda bikar- og deildarmeistaratitla. Hann er bæði að vinna með að íþróttir eigi að vera heilbrigðar og uppbyggilegar en er jafnframt afreksþjálfari og undirstrikar að þetta geti farið saman. Það verður gaman að heyra hvernig hann samþættir þessa tvo þætti,“ segir Viðar.
Markmiðið með fundaröðinni Best fyrir börnin er að dýpka sýn bæði almennings og fagfólks á vandamál og lausnir á mikilvægum samfélagslegum þáttum og styðja fjölskyldur og samfélag í því að tryggja velferð barna og ungmenna.