Skip to main content

Fjarkönnun eykur öryggi og skilning á náttúrunni

Fjarkönnun eykur öryggi og skilning á náttúrunni

„Mínar rannsóknir snúast um rauntíma greiningu fjarkönnunargagna í jarðvísindum,“ segir Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í landfræði, sem vakið hefur athygli undanfarin ár fyrir greiningar á útbreiðslu hrauns í Holuhrauns gosinu og fyrir túlkun á hreyfingum hafíss. Ingibjörg kemur við sögu í nýrri vísindaþáttaröð á RÚV sem nefnist Fjársjóður framtíðar. Þar er fjallað um mikilvægi fjarkönnunar við rannsóknir á áhrifum eldgosa m.a.

Fjarkönnun, eins og Ingibjörg vinnur við, felst í því að taka stafrænar myndir, oftast úr mikilli hæð úr flugvélum eða gervitunglum, og vinna úr þeim fjölþættar upplýsingar. Fjarkönnunarrannsóknir eru afar mikilvægar, ekki síst þegar greina þarf ýmsar breytingar sem verða á umhverfinu. Í nýrri þáttaröð okkar um Fjársjóð framtíðar fylgjumst við með rannsóknum Ingibjargar og heyrum túlkun hennar á mikilvægi þeirra.

Ingibjörg Jónsdóttir

„Mínar rannsóknir snúast um rauntíma greiningu fjarkönnunargagna í jarðvísindum,“

„Bakgrunninn að mínum rannsóknum er að hluta að finna í hafísrannsóknum,“ segir Ingibjörg þegar talinu er vikið að upphafinu á rannsóknum hennar. „Þar skiptir mestu að greina gervitunglamyndir með hraði í umhverfi sem er síbreytilegt vegna vinda, hafstrauma, innri afla og eiginleika íssins.“ Ingibjörg segir að varðandi hafísinn sé grundvallaratriði að koma áreiðanlegum upplýsingum til sjófarenda og rannsakenda á vettvangi til að tryggja öryggi. „Samþáttun rauntímaeftirlits og -rannsókna er áhrifamikil leið til að öðlast betri skilning á ferlum náttúrunnar.“ Ingibjörgu finnst viðfangsefni sitt áhugavert sökum þess að það getur komið að notum á svo mörgum sviðum jarðvísinda, ekki síst í tengslum við rannsóknir á náttúruvá og umhverfisbreytingum. „Fjarkönnun hentar þannig vel til að fá samtímayfirlit yfir stór landsvæði, t.d. með mælingum á geislun sem mannsaugað greinir ekki.“ Þessa dagana vinnur eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands að frekari kvörðun ýmissa fjarkönnunargagna, til að auðveldara sé að meta fljótt eðli og umfang náttúruhamfara, hugsanlegar afleiðingar og viðbrögð. „Niðurstöðurnar lofa góðu, einkum í tengslum við eldgosavá,“ segir Ingibjörg. Tækninni í fjarkönnun fleygir hratt fram með nákvæmari gervitunglagögnum, fjölbreyttari tækjabúnaði, eins og flygildum, sem koma einmitt við sögu í þáttaröðinni nýju. Einnig hefur tækninni fleytt fram í öflugri skönnum og jarðsjám, betri myndvinnslubúnaði og í land- upplýsingakerfum. Á sama tíma og gögnin verða fjölbreyttari reynir meira á vísindamenn að lesa úr þeim og túlka. „Hópurinn sem sinnir þessu hér innan Jarðvísindastofnunar hefur um nokkurra ára skeið unnið með Almannavörnum, ýmsum stofnunum og sveitarfélögum á þessu sviði og komið viðeigandi upplýsingum á framfæri við almenning og aðra vísindamenn. Allt miðast þetta við að átta sig betur á eðli náttúrunnar og að bæta viðbrögð við mögulegum atburðum í náttúrunni.“