Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild
Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, ritaði Nóbelsskáldið Halldór Laxness í skáldsögunni Heimsljósi. Þessi einstaka upplifun, að sjá jökul og himin renna saman, er okkur Íslendingum flestum töm, en miðað við breytingar í náttúrunni verður þessi reynsla líklega ekki sjálfgefin fyrir Íslendinga framtíðarinnar. Guðfinna kemur við sögu í öðrum þætti Fjársjóðs framtíðar þar sem við fylgjumst með rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á jökla.
Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor í jöklafræði, stundar rannsóknir á jöklum sem flestir hopa nú hratt. Hún hefur verið víðförul í rannsóknum sínum og ekki bundið þær við jöklana hér heima. Hún hefur flogið yfir alla helstu jökla í Alaska og gert leysihæðarmælingar til að meta hversu hratt jöklarnir þar bráðna. Þá hefur hún farið alla leið á Suðurskautslandið til að kynna sér hegðun íssins þar og bráðnun. Hún stundaði þar í fyrra mjög markvissar rannsóknir í samvinnu við bresku Suðurskautslandsstofnunina.
„Vinna okkar á Suðurskautslandinu snérist um að skilja flæði íss, hvernig hann hnígur undan eigin þunga og aflagast,“ segir Guðfinna. „Við gerðum nákvæmar mælingar með ratsjártækjum á yfirborði íssins. Við sendum rafsegulbylgjur í gegnum ísinn og tókum á móti þeim eftir að þær höfðu farið í gegnum efstu lögin.“ Guðfinna segir að fjarkönnunarmælingar úr gervihnöttum gefi til kynna að ísinn á Suðurskautslandinu sé að bráðna og stórar íshellur hafi brotnað upp og horfið á síðustu árum. „Það er því mjög mikilvægt að skilja þær breytingar sem eiga sér stað til að hafa möguleika á að spá fyrir um hversu mikið sjávarstaða muni breytast á komandi árum.“
Guðfinna segir verkefnið mjög áhugavert og spennandi enda hafi hún verið fljót að grípa tækifærið þegar samstarfsmenn hennar hjá bresku Suðurskautslandsstofnuninni höfðu samband við hana og buðu henni að taka þátt í verkefninu.
Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor í jöklafræði
„Það er því mjög mikilvægt að skilja þær breytingar sem eiga sér stað til að hafa möguleika á að spá fyrir um hversu mikið sjávarstaða muni breytast á komandi árum.“
Guðfinna er enginn nýgræðingur í sínu fagi en hún vann við dönsku veðurstofuna í Kaupmannahöfn. Þar vann hún við samtengingu loftslags- og jöklalíkana til að geta spáð fyrir um hversu hratt og mikið Grænlandsjökull bráðnar í nánustu framtíð.
Rannsóknin á Suðurskautslandinu byggist að hluta til á reynslunni frá Grænlandi, segir Guðfinna. „Kveikjan að verkefninu á Suðurskautslandinu var sams konar verkefni á Grænlandi, þar sem í ljós kom að stuðlar sem lýsa flæði íssins eru hærri en þeir hafa mælst á tilraunastofu. Á Grænlandi voru í fyrsta skipti gerðar svona nákvæmar mælingar á hnigi íssins við náttúrulegar aðstæður. Þess vegna var ákveðið að fara að nokkrum ísaskilum á Suðurskautslandinu til að gera sams konar mælingar þar.“
Guðfinna segir að rannsóknin á Suðurskautslandinu geti haft áhrif á spár um hvernig jöklar bregðist við loftslagsbreytingum í framtíðinni.
„Niðurstöður hennar auka skilning á flæði íss og gætu orðið til þess að þeir stuðlar sem eru notaðir í ísflæðilíkönum verði endurmetnir.“