Skip to main content

Nám í sjálfbærni

Caitlin Meleney Wilson, aðjunkt og doktorsnemi við Uppeldis- og menntunarfræðideild

Samfélag manna hefur skapað sjálfu sér snúin vandamál sem ógna framtíð plánetunnar og við þurfum að finna lausnir á þeim,“ segir Caitlin Meleney Wilson, doktorsnemi í menntavísindum, sem rannsakar hvernig fólk öðlast þekkingu á sjálfbærni, bæði í gegnum formlegt og óformlegt nám. Caitlin kemur við sögu í öðrum þætti Fjársjóðs framtíðar þar sem við fylgjumst með rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á umhverfið. Einnig er í þættinum fjallað um hvernig sjálfbærnimenntun getur komið að notum til að auka meðvitund um nauðsyn þess að vernda náttúruna.

„Ég skoða valin dæmi, bæði hvernig fullorðnir læra um sjálfbærni í gegnum nám á háskólastigi en einnig í gegnum fræðslu á vinnustað. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á þær mismunandi leiðir sem fullorðnir nýta til að bæði öðlast þekkingu á sjálfbærni og breyta lífsháttum sínum í þágu sjálfbærrar þróunar,“ segir Caitlin sem tekur viðtöl við fjölda fullorðinna til þess að fá skýra mynd af þeim ferlum sem þarna eru að verki. Hugmyndin að doktorsverkefninu kviknaði í meistaranámi Caitlin í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.

„Eftir því sem ég lærði meira og komst að því hve margar af gjörðum mannsins eru vanhugsaðar, þá varð ég hugfangin af því hvers vegna við bregðumst við á þennan hátt. Af hverju gerum við svo margt sem er svo órökrétt? Og hvernig getum við lært af mistökunum og breytt lífsháttum okkar? Ég trúi á hugvitssemi og samúð mannsins og veit því að við getum tekið gáfulegri ákvarðanir. Að mínu mati skiptir menntun og fræðsla miklu máli í þeirri viðleitni að þoka samfélaginu frá ósjálfbærni til sjálfbærni,“ segir Caitlin.

Caitlin Meleney Wilson

"Eftir því sem ég lærði meira og komst að því hve margar af gjörðum mannsins eru vanhugsaðar."

Fyrstu niðurstöður rannsóknanna benda til þess að fólk sé fúsara að kynna sér og læra um sjálfbærni þegar námið hefur merkingu fyrir það persónulega. „Það dugir ekki að demba staðreyndum fyrir fullorðna, þeir bregðast betur við þegar þeir fá tækifæri til að hafa áhrif á hvað og hvernig þeir læra og sjá beinan hag af lærdómnum,“ bendir Caitlin á. Hún bætir við að rannsóknin muni varpa ljósi á það hvernig fullorðnir geta tekið þátt í umbreytandi námi í þágu sjálfbærni við mismunandi aðstæður. „Eftir því sem við öðlumst betri þekkingu á því hvaða leiðir og aðstæður styðja best við umbreytandi nám, þeim mun líklegra er að við þróum samfélagið í átt að sjálfbærni,“ segir hún.