Skip to main content

Tengsl mergæxlis og bráðahvítblæðis

Guðbjörg Jónsdóttir, doktorsnemi við Læknadeild, og Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor við Læknadeild

Horfur sjúklinga með mergæxli, sem er illkynja sjúkdómur í beinmerg, hafa batnað gríðarlega síðastliðin ár. Hins vegar höfum við sýnt fram á að áhættan hjá þessum sjúklingahópi á að greinast með annan ótengdan illkynja blóðsjúkdóm, t.d. bráðahvítblæði, er meiri en hjá öðrum en ástæða þess er ókunn,“ segir Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor við Læknadeild og sérfræðilæknir í blóðsjúkdómum á Landspítala. Sigurður Yngvi ræðir rannsóknir sínar á mergæxlum í þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar sem sýndur er á RÚV. Í röðinni er sjónum beint að rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands og fimmti og síðasti þátturinn er helgaður rannsóknum á krabbameini.

„Við vorum svo heppin að fá doktorsnemastyrk til verkefnisins sem fjármagnaður er af dánarbúi Ásrúnar Einarsdóttur.“

Handhafi doktorsnemastyrksins er Guðbjörg Jónsdóttir sem stundar doktorsnám í líf- og læknavísindum.

Guðbjörg Jónsdóttir og Sigurður Yngvi Kristinsson

„Meginmarkmið rannsóknarinnar er að reyna að skilja betur orsakir og áhættuþætti fyrir þessari umbreytingu frá mergæxli yfir í bráðahvítblæði.“

„Meginmarkmið rannsóknarinnar er að reyna að skilja betur orsakir og áhættuþætti fyrir þessari umbreytingu frá mergæxli yfir í bráðahvítblæði. Til þess að gera það höfum við aflað upplýsinga um rúmlega 20 þúsund sjúklinga með mergæxli sem greindir voru í Svíþjóð á 50 ára tímabili og ætlum að skoða sérstaklega þá 1800 sjúklinga sem greindust með annan ótengdan illkynja sjúkdóm. Helst hafa spjótin beinst að lyfja- og geislameðferð sem sjúklingar fá en nýlegar rannsóknir sem rannsóknarhópur Sigurðar Yngva hefur birt benda til þess að líffræðilegir þættir sjúkdómsins spili líka hlutverk,“ segir Guðbjörg.

Rannsóknarhópur Sigurðar Yngva hefur á undanförnum árum skoðað horfur og fylgikvilla sjúklinga með mergæxli.

„Vegna þess að við höfum aflað ítarlegra gagna um mergæxlissjúklinga og aðra sjúkdóma erum við í lykilaðstöðu til að skoða frekar þessi tengsl,“ segir Sigurður Yngvi og bætir við að það sé mikilvægt að skilja betur áhættuþætti umbreytingarinnar.

„Vonandi komumst við skrefi nær því með þessari rannsókn. Í framtíðinni verður hugsanlega hægt að sníða meðferð mergæxlissjúklinga eftir einstaklingum þannig að hver sjúklingur fái klæðskerasaumaða meðferð sem hentar honum.“