Ana Margarida Pinto e Costa, doktorsnemi við Lyfjafræðideild
Árangur vísindamanna Háskóla Íslands í alþjóðlegum samanburði hefur ekki aðeins skilað skólanum á lista yfir 300 bestu háskóla heims heldur einnig skapað fjölmörg tækifæri til alþjóðlegs rannsóknasamstarfs og jafnframt laðað að skólanum doktorsnema alls staðar að úr heiminum.
Einn þeirra er Ana Margarida Pinto e Costa frá Portúgal sem leggur stund á doktorsnám í lyfjavísindum. „Rannsóknin mín er hluti af stóru alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem nefnist BluePharmTrain og miðar að því að kanna hvort nýta megi efni úr sjávarsvömpum til að þróa ný lyf. Ég mun einbeita mér að því að einangra lífvirk efnasambönd sem svamparnir framleiða og kanna krabbameinshemjandi virkni þeirra.“
Margarida lauk meistaraprófi í umhverfis-, mengunar- og eiturefnafræði í heimalandi sínu og starfaði um tíma við rannsóknir á lífvirkum efnum í lífverum við strendur Portúgals.
„Þegar ég lauk verkefninu vissi ég að mig langaði að afla mér doktorsmenntunar á þessu sviði,“ segir Margarida sem fékk ósk sína uppfyllta þegar hún rakst á auglýsingu um doktorsstöðu við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.
Ana Margarida Pinto e Costa
„Rannsóknin mín er hluti af stóru alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem nefnist BluePharmTrain og miðar að því að kanna hvort nýta megi efni úr sjávarsvömpum til að þróa ný lyf.
„Hugmyndin um að búa í þessu ótrúlega landi, sem er svo ólíkt heimalandi mínu, var mér mikil hvatning og ég er afar ánægð með að fá tækifæri til þess að fá þjálfun sem vísindamaður við Háskóla Íslands í samstarfi við ArcticMass,“ segir Margarida og vísar þar til sprotafyrirtækis sem kemur að verkefninu hér á landi.
Verkefnið lofar góðu. „Við höfum að undanförnu beint sjónum okkar að svampi sem safnað var suðvestur af Íslandi en hann hefur reynst góð uppspretta lífvirkra efna. Við höfum þegar greint nokkur efnasambönd sem ekki hefur verið lýst áður og við erum enn að reyna að átta okkur að fullu á efnabyggingu þeirra,“ segir Margarida og bætir við: „Þegar við höfum lokið því ætlum við að kanna virkni þeirra gegn krabbameinsfrumum í samvinnu við lyfjafyrirtækið PharmaMar á Spáni.
Við getum ekki sagt fyrir fram að efnasamböndin hemji krabbameinsfrumur en efnabygging þeirra er þó dæmigerð fyrir slík efnasambönd. Jafnvel þótt þau hafi ekki þá virkni geta þau engu að síður nýst í þróun nýrra lyfja.“
Margarida er ekki í vafa um vísindalegt mikilvægi rannsóknanna enda leitað að nýjum og spennandi efnasamböndum sem nýst geta í lyfja- og líftækniiðnaðinum. „Augljóslega mun slíkt koma almenningi til góða því sjúkdómar taka stökkbreytingum og því er sífellt þörf á nýjum lyfjum gegn þeim.“