Sveinbjörn Steinþórsson, tæknimaður hjá Jarðvísindastofnun Háskólans - LÍFSHÆTTA Í VÍSINDANNA ÞÁGU
Síðsumarsól fellur á hvítan vikur og biksvart hraunið sem skreið fram úr Öskju árið 1961. Askja er þögul og ævintýralega fögur á björtum morgni en í henni urðu gríðarlegar hamfarir árið 1875 sem ýttu undir flutninga Íslendinga til Vesturheims. Öskufall hafði þá skelfileg áhrif, ekki síst á Austurlandi, en þaðan streymdi fólk í leit að betra líf vestan hafs.
Jarðvísindamenn Háskólans keppa að því dag hvern í rannsóknum sínum að skilja eðli sprengjugossins stóra í Öskju og allra annarra eldgosa til að draga úr hættunni sem þeim fylgir. Hin kynngimagnaða þögn Ódáðahrauns er skyndilega rofin þegar kröftugur maður tekur að bora í hraunhelluna með talsverðu átaki.
Sveinbjörn Steinþórsson
„Mitt starf felst í því að hugsa í lausnum en ég aðstoða vísindamenn og nemendur við að safna sýnum, auk þess að smíða og reka mælibúnað. Við erum að koma fyrir mælitæki hér sem á að vakta betur Öskjuna.“
„Mitt starf felst í því að hugsa í lausnum en ég aðstoða vísindamenn og nemendur við að safna sýnum, auk þess að smíða og reka mælibúnað. Við erum að koma fyrir mælitæki hér sem á að vakta betur Öskjuna,“ kallar Sveinbjörn Steinþórsson, tæknimaður hjá Jarðvísindastofnun, til okkar. Hann lítur andartak upp frá bornum en heldur svo áfram að hola steininn. Þegar borinn þagnar segir hann okkur frá hættunni sem fylgir starfinu. Í nýrri þáttaröð um rannsóknir vísindamanna Háskóla Íslands fylgjumst við með Sveinbirni og félögum hans við störf við rætur Öskju. Í fyrsta þættinum fá áhorfendur RÚV einmitt sýn á áhrif eldgosa á landið, umhverfið og samfélagið og við slíkar rannsóknir kemur fyrir að starf vísindamanna Háskóla Íslands sé alls ekki hættulaust.
„Já, starf mitt getur verið hættulegt enda tengist það oft umbrotum, en ég met og greini hættur í rannsóknarferðum svo að þær skili árangri og tryggi að allir komist heilir heim.“ Tæknimenn lenda í ýmsu við ólíkar aðstæður. Í eitt skiptið tókst ekki að koma mikilvægum tölvubúnaði í gang þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Á endanum var tækið tekið sundur og sett saman að nýju því engin fannst bilunin. Það kom enginn straumur á tækið þrátt fyrir að rafmagnsverkfræðingurinn í hópnum fullyrti að hann hefði séð tækið virka eftir að hann hafði sjálfur stungið því í samband. Við nánari skoðun kom reyndar í ljós að hann hafði stungið tækinu í samband við framlengingarsnúru og svo klónni á framlengingarsnúrunni í samband við sjálfa sig en ekki í samband við rafmagn. Svona geta nú verkefnin okkar verið flókin,“ segir Sveinbjörn og skellir upp úr.
„Jú, auðvitað er maður fróðari en áður um allt sem lýtur að rannsóknum í jarðvísindum og kannski er maður stundum farinn að hugsa eins og vísindamaður til að skilja tilganginn með öllum þessum mælingum. Maður þarf jú að vita eftir hvaða gögnum vísindamennirnir sækjast,“ segir Sveinbjörn og glottir. „Það eru annars feiknarmikil vísindi fólgin í því að halda öllum þessum mælitækjum gangandi og að safna sýnum til að rannsóknirnar skili einhverju síðar meir. Rannsóknir og mælingar skipta höfuðmáli til að auka skilning okkar á náttúrunni. Með rannsóknum verður vonandi hægt að spá fyrir um náttúruhamfarir í framtíðinni og skilja betur nýtingu auðlindanna.“