Skip to main content

Flygildi nýtt til hrauns- og jöklarannsókna

Alexander Helmut Jarosch, fræðimaður við Jarðvísindastofnun Háskólans -  Flygildi nýtt til hrauns- og jöklarannsókna

Jöklafræðingar leita sífellt nýrra leiða til þess að fylgjast með þeim breytingum sem eru að verða á jöklum heimsins samfara hlýnandi loftslagi. Við Háskóla Íslands hefur Alexander Helmut Jarosch, jöklafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans, tekið flygildi í sína þjónustu til þess að geta betur metið breytingar á jöklum hér á landi. Flygildið var einnig nýtt til að kortleggja nýja hraunið í Holuhrauni. Í nýrri sjónvarpsþáttaröð um rannsóknir vísindamanna við Háskóla Íslands hittum við Alex þar sem hann flýgur flygildinu við rannsóknir á Hellisheiði. Þar sest hann niður með sjónvarpsmönnum og segir frá mikilvægi flygilda við rannsóknir.

„Eftir að ég fékk styrk úr Eggertssjóði við Háskóla Íslands sumarið 2014 ákvað ég að kaupa ódýran dróna sem getur tekið hágæðaloftmyndir en hann hentar mjög vel til að fylgjast með kelfingu á jaðri Breiðamerkurjökuls,“ segir Alexander en með kelfingu jökla er átt við ís sem brotnar af jökli í sjó eða lón og bráðnar þar.

Alexander Helmut Jarosch

„Ísland er með bestu löndum í heimi til jöklarannsókna. Í stað þess að þurfa að ferðast í marga daga til að komast á jökla, t.d. á Grænlandi og Suðurskautslandinu, tekur það ekki nema nokkra klukkutíma að komast að íslensku jöklunum.“

Alexander Helmut Jarosch, fræðimaður við Jarðvísindastofnun Háskólans -  Flygildi nýtt til hrauns- og jöklarannsókna

Breiðamerkurjökull kelfir í Jökulsárlón þar sem sjávarfallastrauma gætir og þar eru aðstæður til rannsókna afar góðar. Alexander, sem er Austurríkismaður, kom fyrst hingað til lands sem ferðamaður um síðustu aldamót og heillaðist svo af landinu að hann kom í skiptinám og síðan doktorsnám við Háskóla Íslands þar sem hann naut leiðsagnar Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði. Honum bauðst í framhaldinu rannsóknastaða við Jarðvísindastofnun og nú hefur hann stofnað fjölskyldu hér.

„Ísland er með bestu löndum í heimi til jöklarannsókna. Í stað þess að þurfa að ferðast í marga daga til að komast á jökla, t.d. á Grænlandi og Suðurskautslandinu, tekur það ekki nema nokkra klukkutíma að komast að íslensku jöklunum. Þetta er því kjörinn staður fyrir jöklafræðing og það eru forréttindi að fá að vinna með jöklafræðiteymi Jarðvísindastofnunar,“ segir hann.

Alexander hefur beint sjónum sínum að vatnafræði jökla, þar á meðal jökulhlaupum og áðurnefndri kelfingu jökla en afar takmörkuð þekking er til um það ferli. Þar kemur flygildið að góðu haldi.

„Gögnin sem við öflum með myndatökunum úr drónanum gera okkur kleift að fylgjast betur en nokkru sinni fyrr með breytingum á jaðri Breiðamerkurjökuls. Loftmyndirnar hafa mjög háa upplausn og þær opna nýjar leiðir til þess að rannsaka kelfingu jökla sem segja má að sé einn af týndu hlekkjunum í skilningi okkar á því hvernig bráðnun jökla leiðir til hækkunar sjávarborðs. Myndirnar hafa þegar sýnt fram á flókna og breytilega hegðun íssins, m.a. hvernig hann snýst og hreyfist á jaðrinum,“ segir hann enn fremur.

„Almennt má segja að drónanum sé ætlað það hlutverk að skrá skammtímabreytingar á jöklum. Á Jarðvísindastofnun erum við rétt að byrja að beita þessari nýju tækni en möguleikarnir eru mjög miklir.“

Alexander Helmut Jarosch, fræðimaður við Jarðvísindastofnun Háskólans
Alexander Helmut Jarosch, fræðimaður við Jarðvísindastofnun Háskólans
Alexander Helmut Jarosch, fræðimaður við Jarðvísindastofnun Háskólans
Alexander Helmut Jarosch, fræðimaður við Jarðvísindastofnun Háskólans
Alexander Helmut Jarosch, fræðimaður við Jarðvísindastofnun Háskólans
Alexander Helmut Jarosch, fræðimaður við Jarðvísindastofnun Háskólans
Alexander Helmut Jarosch, fræðimaður við Jarðvísindastofnun Háskólans
Alexander Helmut Jarosch, fræðimaður við Jarðvísindastofnun Háskólans