Skip to main content
23. febrúar 2018

Cynthia Enloe með erindi í Háskóla Íslands

""

Cynthia Enloe, alþjóðastjórnmálafræðingur og rannsóknaprófessor við Clark-háskóla í Bandaríkjunum, fjallar um refsileysi vegna ofbeldisverka gegn konum og kynferðisofbeldi í erindi  í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 27. febrúar kl. 12-13. Yfirskrift erindisins er „#ÍslandLíka: Hvers vegna heldur feðraveldið enn velli?“ Fyrirlesturinn er haldinn í tilefni nýrrar bókar Enloe sem vakið hefur mikla athygli. Bókin ber heitið The Big Push: Exposing and Challenging the Persistence of Patriarchy og kom út hjá University of California Press seint á síðasta ári.  

Í fyrirlestri sínum veltir Cynthia Enloe fyrir sér í fyrirlestri sínum hvers vegna refsileysi vegna ofbeldisverka gegn konum viðgangist enn í samfélögum okkar. Kynferðisleg áreitni er enn mjög útbreidd næstum hálfri öld eftir að fyrirbærið var nefnt og skilgreint. Hvað er það sem veldur því að í stað þess að ná hámarki fyrir nokkrum áratugum hafi kynferðisleg áreitni haldið áfram að eitra vinnustaði með tilheyrandi kvenhatri og hvatningu til handa þeim sem beita kynferðislegu ofbeldi.

Fræðikonurnar Annadís Gréta Rúdólfsdóttir, Lilja Hjartardóttir and Þorgerður Þorvaldsdóttir sitja í pallborði eftir fyrirlestur Cynthiu og ræða efni bókarinnar við hana og setja í samhengi við íslenskt samfélag í kjölfar #metoo byltingarinnar. Irma Erlingsdóttir stýrir umræðum. Fyrirlesturinn og umræðurnar fara fram á ensku.

Bók Cynthiu Enloe, The Big Push: Exposing and Challenging the Persistence of Patriarchy,  verður til sölu á undan og á eftir fyrirlestrinum en hún fæst einnig í Bóksölu Stúdenta. 

Um Cynthiu Enloe
Cynthia Enloe er rannsóknaprófessor við Clark-háskóla í Bandaríkjunum og sérfræðingur á sviði alþjóðastjórnmála og jafnréttisfræða. Enloe er heimsþekkt fyrir femíníska greiningu sína á hervæðingu, stríðum, stjórnmálum og og kynjaða sýn á öryggismál og hnattvæðingu efnahagskerfa. Hún hefur stundað rannsóknir í Írak, Afganistan, Bandaríkjunum, Bretlandi, Japan, Filippseyjum, Kanada, Chile og Tyrklandi. 

Enloe hefur komið til Íslands á hverju ári frá árinu 2010 og kennt námskeið um kyngervi, frið og öryggi við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Í ferðum sínum hingað hefur hún oftar en ekki haldið fyrirlestra og tekið þátt í ráðstefnum um málefni sem snerta friðar- og öryggismál og kynjajafnrétti. 

Meðal ritverka Enloe eru bækurnar Maneuvers: The International Politics of Militarizing Women's Lives (2004), The Curious Feminist (2004), Globalization and Militarism (2007), Nimo's War, Emma's War: Making Feminist Sense of the Iraq War, (2011), The Real State of America: Mapping the Myths and Truths about the United States (ritstýrt með Joni Seager) (2012), Seriously! Investigating Crashes and Crises as if Women Mattered (2013). Nýleg endurgerð af Beaches and Bases: Making Feminist Sense of International Politics (2000) var gefin út árið 2014 en sú bók gerði Cynthiu Enloe heimsþekkta fyrir nýstárlega gagnýni á alþjóðastjórnmál sem byggði á femínískri nálgun hennar. 
 

""