Skip to main content
27. nóvember 2017

Öndvegisverkefni um fötlun fyrir tíma fötlunar hleypt af stokkunum

Þann 29. nóvember næstkomandi verður rannsóknarverkefninu Fötlun fyrir tíma fötlunar (Disability before disability) hleypt af stokkunum hjá Háskóla Íslands með málþingi í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Málþingið hefst kl. 15 og lýkur kl. 17.

Rannsóknarverkefnið, sem hlaut öndvegisstyrk Rannís fyrr á þessu ári, byggist á einstöku þverfræðilegu samstarfi margra fræðigreina og fræðimanna sem beina sjónum að sögu fatlaðs fólks í íslenskri fortíð, en þetta er svið sem hefur lítið sem ekkert verið rannsakað fram til þessa.

Einn tilgangur verkefnisins er  að finna upplýsingar um fatlað fólk í Íslandsögunni frá landnámi allt til þess tíma að lög um málefni fatlaðs fólks voru fyrst sett á Alþingi. Til að nálgast þessar upplýsingar, sem sannarlega liggja ekki á yfirborðinu, er tvinnað saman aðferðafræði sjö fræðigreina innan Háskóla Íslands á sviði menningar-, hug- og félagsvísinda. Þetta eru sagnfræði, fornleifafræði, bókmenntafræði, mannfræði, þjóðfræði, safnafræði og upplýsingafræði auk fötlunarfræðinnar sem hýsir hið metnaðarfulla rannsóknarverkefni en stjórnandi þess er dr. Hanna Björg Sigurjónsdóttir, prófessor í fötlunarfræði. Það er ekki einungis efni rannsóknarinnar sem er nýmæli heldur ekki síður hin þverfræðilega nálgun sem beitt er í verkefninu.  

DAGSKRÁ:

Málþingsstjóri: Ármann Jakobsson, prófessor við Háskóla Íslands

  • Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður setur málþingið
  • Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda við HÍ: Þverfræðilegt samstarf: Lífæð framsækinnar þekkingarsköpunar
  • Anna Lísa Rúnarsdóttir, sviðsstjóri rannsókna og þróunar á Þjóðminjasafni Íslands: Í leit að þekkingu
  • Rannveig Traustadóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum: Framtíðin er núna
  • Hanna Björg Sigurjónsdóttir, prófessor í fötlunarfræði og verkefnastjóri öndvegisverkefnisins Fötlun fyrir tíma fötlunar kynnir rannsóknarverkefnið og opnar heimasíðu verkefnisins
  • Berth Danermark, prófessor emeritus við Örebro-háskóla: Interdisicplinary Research - Theory and Practice (Þverfræðilegar rannsóknir: Kenningar og reynsla)

Berth Danermark
Í fyrirlestri sínum mun Berth Danermark, prófessor emeritus við Örebro-háskóla í Svíþjóð, fjalla um kenningar um þverfræðileika og þverfræðilegt fræðastarf. Sjálfur hefur hann langa reynslu af slíku fræðastarfi. Hann mun rekja dæmi um þverfræðilegt starf og veita góð ráð um hvernig takast má á við þær áskoranir sem tengjast þverfræðilegri vinnu. Erindið verður haldið á ensku.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Léttar veitingar í lok dagskrár.

Fyrri hluti málþingsins verður á íslensku en fyrirlestur Berths Danemark á ensku.

Málþingið verður rittúlkað og fyrri hluti þess einnig táknmálstúlkaður.

""