Meðal bóka ársins í Times Literary Supplement
Bandarísk útgáfa bókarinnar um Hans Jónatan, Manninn sem stal sjálfum sér eftir Gísla Pálsson, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, er í hópi bóka ársins 2017 samkvæmt hinu virta bókmenntatímariti Times Literary Supplement. Þegar hefur verið gerð heimildamynd byggð á rannsóknum Gísla á ævi Hans Jónatans og þá íhugar bandarískt kvikmyndafyrirtæki að framleiða kvikmynd í fullri lengd um ævintýrlegt lífshlaup hans.
Bókin „Hans Jónatan – Maðurinn sem stal sjálfum sér“ kom út á vegum Forlagsins árið 2014 en hún byggist á rannsóknum Gísla á ævi manns að nafni Hans Jónatan sem var uppi á 18. og 19. öld. Hann fæddist í ánauð á eyjunni St. Croix í Jómfrúareyjaklasanum, sem þá tilheyrði Danmörku, og var sendur ungur að árum til Kaupmannahafnar. Þar naut hann sem þræll menntunar hjá húsbónda sínum en í kjölfar frækilegrar frammistöðu í orrustunni um Kaupmannahöfn 1801 sóttist hann eftir frelsi. Húsbóndi hans höfðaði þá mál fyrir dönskum rétti og vildi senda „múlattann“, eins og Hans Jónatan var kallaður, aftur til Jómfrúreyja. Hans Jónatan tapaði málinu en lét sig engu að síður hverfa. Hann fluttist til Íslands þar sem hann settist að á Djúpavogi, kvæntist og gerðist verslunarmaður og bóndi.
Bandaríska bókaforlagið University of Chicago Press ákvað að gefa bókina út á ensku undir heitinu „The Man Who Stole Himself“ í þýðingu Önnu Yates. „Ritstjórar þar á bæ óskuðu eftir breytingum á verkinu sem tryggðu sterka skírskotun til bandarískra aðstæðna og lesenda, ekki síst vísun í kynþáttadeilur samtímans. Það virðist hafa tekist vel,“ segir Gísli en ensk útgáfa bókarinnar kom út í fyrra. Hún fékk mjög lofsamlega dóma og hefur m.a. verið nýtt í kennslu þar vestra. Gísli fylgdi henni enn fremur eftir með fyrirlestrum og upplestrum hjá söfnum og félagasamtökum í Bandaríkjunum í fyrrahaust.
Í nýju hefti Times Literary Supplement, sem er leiðandi alþjóðlegt vikurit á sviði bókmennta sem á sér yfir 100 ára sögu, er fjallað um bestu bækur ársins 2017. Leitað var álits stórs hóps bókmenntafræðinga, rithöfunda og bókmenntarýna um athyglisverðustu bækurnar og meðal bóka sem nefndar eru er „The Man Who Stole Himself“. „Það hefur afar mikla þýðingu fyrir mig að bókin sé á lista Times Literary Supplement yfir bækur ársins. Það var ekki auðvelt að skrifa þetta verk og fá það útgefið utan landsteinanna. Ég hef notið aðstoðar vandaðra ritstjóra bæði hér á landi, einkum Guðrúnar Sigfúsdóttur hjá Forlaginu og þeirra Nancy Marie Brown og Tim Mennel í Bandaríkjunum og svo auðvitað þýðandans Önnu Yates sem hefur unnið frábært verk,“ segir Gísli.
Hann bætir við að margir afkomendur Hans Jónatans og vinir hans og samstarfsmenn hafi verið honum innan handar. „Háskóli Íslands hefur einnig veitt mér svigrúm og fjárhagslegan stuðning til að vinna verkið og fylgja því eftir. Fyrir þetta allt er ég mjög þakklátur. Nú finnst mér að við öll sem höfum komið að þessu höfum uppskorið ríkulega. Ég var alltaf sannfærður um að söguefnið ætti erindi á erlenda bókamarkaði. Það er ánægjulegt að fá það staðfest,“ segir Gísli enn fremur.
Kvikmynd um Hans Jónatan?
Ferðalög Hans Jónatans um heiminn hafa haldið áfram því danski útgefandinn Rebel With a Cause gaf út bókina í danskri þýðingu fyrr á þessu ári og frönsk útgáfa er væntanleg snemma á næsta ári hjá Gaia Editions í París. Þá var heimildamynd Lífsmyndar um Hans Jónatan, sem er samstarfsverkefni Gísla og kvikmyndagerðarfólksins Valdimars Leifssonar og Bryndísar Kristjánsdóttur, frumsýnd fyrr á þessu ári en hún verður sýnd á RÚV innan skamms. Enn fremur hefur bandarískt kvikmyndafyrirtæki látið skrifa drög að kvikmyndahandriti með dramatíska mynd í fullri lengd í huga en ekkert hefur þó verið ákveðið enn um framleiðslu myndarinnar að sögn Gísla.
Gísli hefur í mörg horn að líta þessi dægrin því hann er jafnframt að fylgja eftir útgáfu nýrrar bókar sem nefnist Fjallið sem yppti öxlum. Um er að ræða blöndu endurminninga og vísinda þar sem Gísli rifjar upp æskuárin í Vestmannaeyjum og teflir saman bæði þeirri náttúruvá sem við búum við og þeirri ógn sem náttúrunni stafar af manninum á því sem nefnt hefur verið mannöld. „Stundum varð mér á að kalla verkið Fjallið sem stal sjálfu sér!“ segir Gísli kíminn og bætir við: „Kannski segir það sína sögu. Reyndar mætti nota slíkt orðalag um svonefndan Flakkara, fjall sem losaði sig úr hlíðum Eldfells í Heimaeyjargosinu árið 1973 og hélt í átt til sjávar. Sumir björgunarmanna tóku sér far með fjallinu.“