Rannsóknasetur um smáríki hlýtur Jean Monnet styrk
Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands hlaut nýverið styrk úr Jean Monnet áætlun Evrópusambandsins, Jean Monnet Networks. Um er að ræða þriggja ára rannsóknarverkefni um stöðu smáríkja innan Evrópusambandsins í dag og hljóðar styrkurinn upp á 300.000 evrur, jafnvirði hátt í 40 milljóna króna. Háskóli Íslands leiðir verkefnið en níu aðrir háskólar taka þátt í því: Kaupmannahafnarháskóli, Háskólinn í St. Andrews í Skotlandi, Háskólinn í Vilnius, Háskólinn í Tallinn, Háskólinn á Möltu, Háskólinn í Ljubljana, Háskólinn í Lundi, Háskólinn í Zagreb og Eyjahafsháskóli á Ródos. Rannsóknasetur um smáríki heyrir undir Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.
Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, mun leiða verkefnið fyrir hönd Háskóla Íslands ásamt Piu Hansson, forstöðumanni Alþjóðamálastofnunar og Tómasi Joensen, verkefnisstjóra hjá Rannsóknasetri um smáríki. Á næstu þremur árum mun rannsóknarhópurinn halda ráðstefnur, vinnustofur fyrir unga fræðimenn, gefa út fræðigreinar og stefnumótandi tillögur ásamt því að ljúka verkefninu með útgáfu bókar.
Jean Monnet Networks styrkurinn er mikil viðurkenning á starfi smáríkjasetursins sem hefur sérhæft sig í stöðu smáríkja í Evrópu. Árið 2013 hlaut setrið öndvegissetursstyrk frá menntaáætlun Evrópusambandsins og hefur síðan þá starfað sem Jean Monnet Centre of Excellence. Einnig hlaut setrið styrk úr Erasmus+ KA2 menntaáætlun Evrópusambandsins árið 2014 og aftur árið 2016. Rannsóknasetur um smáríki hefur starfrækt sumarskóla í smáríkjafræðum frá árinu 2003 og hlaut nýverið gæðaviðurkenningu Erasmus+ fyrir verkefnið.