Menntun í latínu og fornfræði veitir einstaka sýn í menningarsögu Evrópu og tækifæri til frekari rannsókna í hugvísindum. Hvort sem um er að ræða bókmenntasögu og heimspeki, mannkynssögu eða listasögu er menntun í fornfræði undirstöðuþáttur til skilnings á vestrænum menningararfi.
Um námið
Latínunám er hluti af fornfræðinámi. Undirstaða og kjarni fornfræðinnar er klassísk textafræði en fornfræði er einnig þverfagleg fræðigrein sem fæst við allar hliðar fornaldarmenningar Grikkja og Rómverja. Innan greinarinnar rúmast til dæmis sagnfræði, fornleifafræði, bókmenntafræði, heimspeki, listasaga og málvísindi að svo miklu leyti sem þessar greinar fást við fornöldina.
Til að geta fengist við viðfangsefnið er kunnátta í fornmálunum tveimur, grísku og latínu, nauðsynleg. Nám í fornfræði hefst því með námi í latínu og/eða grísku.
Markmið
Markmið með námi í latínu er að veita nemendum innsýn í forna menningu Rómverja og gera þá færa um að lesa og túlka heimildir og texta, sem eru afsprengi þeirrar menningar, enda er það lykillinn að frekari rannsóknum á klassískri menningu fornaldar og arfi hennar í nútímanum.
Námstilhögun
Námskeiðunum sem boðið er upp á má skipta í þrennt:
- Grunnnámskeið eða byrjendanámskeið, þar sem farið er yfir beygingafræði, setningafræði og málsögu og textar eru vandlega lesnir og þýddir. Markmiðið með þessum námskeiðum er að gera nemendur færa til þess að lesa heimildir texta á frummálinu.
- Yfirlitsnámskeið veita yfirlit yfir sögu og menningu fornaldar en ekki er gert ráð fyrir kunnáttu í latínu eða grísku í þeim námskeiðum. Þessi námskeið fjalla stundum um þrengri viðfangsefni en almenn yfirlitsnámskeið en efni þeirra er breytilegt á hverju misseri. Yfirlitsnámskeiðin standa oft nemendum í öðrum greinum til boða og er því ekki gert ráð fyrir þekkingu á frummálinu en þó lesi þeir sem stunda nám í latínu valda texta á frummálinu.
- Námskeið í textalestri þjálfa nemendur enn frekar í lestri texta á frummálinu. Viðfangsefni þessara námskeiða er breytilegt frá ári til árs.
Enn fremur stendur nemendum til boða að vinna margs konar sérverkefni í samráði við og undir leiðsögn kennara eða í tengslum við námskeið.
Náminu lýkur með ritgerð til BA-prófs, sem vegur 10 einingar. Yfirleitt er um að ræða þýðingu á ákveðnu verki með fræðilegum inngangi en einnig kemur til greina hefðbundin námsritgerð, sem sýnir getu nemandans til að fjalla um viðfangsefni í latneskum fræðum, t.a.m. í latneskum bókmenntum eða Rómarsögu, á fræðilegan máta.
Hvers vegna latína?
Latína er formóðir allra rómanskra mála en var upphaflega mállýska í Róm og Latium. Hún hefur verið bókmenntamál frá um 240 f.o.t. en er þekkt úr mun eldri heimildum (áletrunum). Samfara auknum áhrifum Rómverja breiddist latína út um allt rómverska heimsveldið en frá og með miðöldum skiptist talmálið í fjölmargar mállýskur sem rómönsk mál eru runnin frá. Latneskt ritmál hélst þó sem sameiginlegt tungumál menntaðra manna.
Klassísk latína var ritmál yfirstéttar í Rómaveldi frá því á fyrstu öldunum fyrir okkar tímatal. Frá síðfornöld og við upphaf miðalda skiptist talmálið í fjölmargar mállýskur, sem rómönsk mál eru runnin frá.
Miðaldamenning Evrópumanna hvíldi að mestu leyti á þessum latínuarfi. Latínukunnátta er lykill að öllum rannsóknum á sögu og bókmenntum miðalda. Latína var notuð sem kirkjufræði- og stjórnsýslumál í Evrópu fram á 19. öld og var opinbert mál rómversk-kaþólsku kirkjunnar fram yfir miðja 20. öld.
Lærðir Íslendingar rituðu ýmislegt á latínu á 17. og 18. öld og eru þau ritverk mikilvægur hluti af íslenskum menningararfi.
Nýleg námskeið
Meðal námskeiða sem tengjast menningu fornaldar og kennd hafa verið í Háskóla Íslands nýlega eru: Þættir úr hugmyndasögu fornaldar, Goð og hetjur: Goðafræði Grikkja og Rómverja, Heimur Aþenu, Grískir gleðileikir og samfélag Aþeninga, Rómversk lýrík, Latneskur kveðskapur, Sallústíus, Cicero: Um eðli guðanna og Miðaldalatína.
Húsnæði
Kennsla fer aðallega fram í Veröld - húsi Vigdísar, Aðalbyggingu, Odda og Árnagarði.
Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.