Nám í Íslensku sem öðru máli er kjörin leið fyrir þá sem vilja öðlast fræðilega og/eða hagnýta þekkingu á íslensku. Tvær námsleiðir eru í boði: BA-nám sem er í senn hagnýtt tungumálanám og almennt fræðilegt nám um íslenska tungu, bókmenntir og sögu Íslands. Inntökupróf er í námsleiðina. Hagnýtt diplómanám sem er einkum ætlað þeim sem vilja öðlast færni til að geta tekist á við frekara nám í íslensku sem öðru máli eða búa sig undir störf í íslensku samfélagi. Upplýsingar um inntökupróf í BA - nám í Íslensku sem öðru máli má finna hér. Hér má finna upplýsingar um stök námskeið í íslensku sem öðru máli, sem eru opin öllum nemendum Háskóla Íslands. Aðeins er tekið við umsóknum einu sinni á ári og hefja nemendur jafnan nám að hausti. Nám í Íslensku sem öðru máli hefur ótvírætt hagnýtt gildi og hefur reynst nemendum gott veganesti á lífsleiðinni. Nemendur eiga að loknu BA-námi að hafa öðlast nauðsynlegan grunn og fræðilega þekkingu á íslensku máli og menningu til að leggja stund á frekara íslenskunám. Nemendur eiga auk þess að hafa tileinkað sér sjálfstæði, víðsýni og gagnrýna hugsun sem nýtist þeim í námi og starfi. Margir hafa haldið áfram námi í íslensku eða skyldum greinum í heimalandi sínu eða hérlendis, enda veitir kunnátta í íslensku, byggð á fræðilegum grunni, mikla möguleika til frekara náms og rannsókna á mörgum sviðum málvísinda og bókmennta. Aðrir hafa sest hér að, lagt íslensku samfélagi lið og auðgað það. Þeir sem hafa traust og góð tök á tungumálinu og almenna þekkingu á íslenskri menningu standa betur að vígi í íslensku samfélagi en ella. Inntökuskilyrði og umsóknir Inntökuskilyrði Inntökuskilyrði í Hagnýtt nám í íslensku sem öðru máli er erlent próf sem samsvarar íslensku stúdentsprófi. Auk þess þurfa nemendur að sýna fram á enskukunnáttu með TOEFL eða IELTS prófi (lágmarkseinkunn TOEFL 79, IELTS 6,5). Inntökuskilyrði í BA-nám í Íslensku sem öðru máli er erlent próf sem samsvarar íslensku stúdentsprófi. Umsækjendur þurfa að auki að standast lágmarkskröfur á rafrænu aðgangsprófi. Færnikröfur miðast við Icelandic Online 1 og 2, sjálfsnámsefni sem opið er á Netinu (www.icelandiconline.is). Prófið verður haldið kl. 12:00, þann 10. júní í Háskóla Íslands. Þeir sem ekki geta mætt í Háskóla Íslands verða að bóka fjarprófsstað á Íslandi. Nánari upplýsingar verða sendar umsækjendum. Nýjum nemendum, sem hafa umtalsverða þekkingu í íslensku og íslenskri málfræði, gefst kostur á því í ágúst ár hvert að taka próf sem eru sambærileg þeim prófum sem fyrsta árs nemar í BA-námi hafa lokið. Þeir sem ná öllum sex prófunum geta hafið nám á öðru ári í BA-náminu. Nánari upplýsingar má finna hér. Nánari fyrirspurnir um þessi efni skulu sendar á admission@hi.is. Innritunargjald og styrkir Engin skólagjöld eru við Háskóla Íslands en stúdentar greiða árlegt innritunargjald, 75.000 ISK fyrir háskólaárið (sjá nánar um gjöld hér). Engir styrkir eru á vegum Háskóla Íslands en íslensk stjórnvöld veita árlega um 15 styrki til BA-náms í íslensku sem öðru máli (sjá nánar um styrki hér). Umsóknarfrestur Aðeins er tekið við nýjum nemendum á haustmisseri. Umsóknarfrestur rennur út 1. febrúar ár hvert. Umsækjendur með íslenska kennitölu geta sótt um til 20. maí í BA-nám í íslensku og til 5. júní í Hagnýt nám í íslensku. Almennar upplýsingar um umsóknarferli. Umsóknareyðublað (byrjað er að taka við umsóknum 15. desemeber). Námsstyrkir. BA-nám Þessi námsleið er einkum ætluð þeim sem hafa fræðilegan áhuga á íslensku máli, bókmenntum og menningu. Námið er í senn fræðilegt og hagnýtt. Annars vegar er um að ræða tungumálanám þar sem nemendur fá kennslu og þjálfun í að skrifa, tala og skilja nútímaíslensku og hins vegar almennt fræðilegt nám um íslenska tungu, bókmenntir og sögu Íslands. Fjallað er um beygingakerfi, setningakerfi og hljóðkerfi íslensks nútímamáls. Nemendur lesa jafnt fornbókmenntir sem nútímabókmenntir og fjallað er um sögu Íslands og samfélag. Þá er þýðingafræði og þýðingum gerð nokkur skil og einnig annars máls fræði þar sem íslenska er í forgrunni. Markmið Markmið námsins er að nemendur nái öruggum tökum á íslensku máli, rituðu sem töluðu, og öðlist staðgóða þekkingu á eðli íslenskrar tungu og bókmennta sem og á menningu og þjóðlífi. Tilhögun Hægt er að nema íslensku sem annað mál sem aðalgrein í tvö eða þrjú ár (til 120 eða 180 eininga) eða aukagrein í eitt ár (til 60 eininga). Kennsla fer fram í fyrirlestrum, smærri hópum og umræðutímum. Einnig eru heimaverkefni mikilvægur þáttur kennslunnar í flestum námskeiðum. Tímasókn er hófleg en heimavinna er mikil og slíkt krefst sjálfstæðra og agaðra vinnubragða og gagnrýninnar hugsunar. Námsmat er af ýmsum toga: skrifleg og munnleg próf, framsaga í tímum, ritgerðir, heimaverkefni. Umsóknarfrestur. Nánari upplýsingar í kennsluskrá. Hagnýtt nám Þessi námsleið er einkum ætluð almennum nemendum og skiptinemum sem vilja öðlasta grundvallarfærni í íslensku, m.a. í þeim tilgangi að stunda annað nám eða sinna almennum störfum í íslensku samfélagi. Hvorki er hægt að fá einstök námskeið úr þessari námsleið metin inn í BA-nám í íslensku sem annað mál né sem aukagrein til BA-prófs í annarri námsleið innan háskólans. Markmið Markmið námsins er að nemendur nái grundvallartökum á íslensku máli, rituðu sem töluðu. Tilhögun Um er að ræða eins árs nám (60 einingar), sem lýkur með diplómagráðu. Kennsla fer fram í fyrirlestrum, smærri hópum og umræðutímum. Einnig eru heimaverkefni mikilvægur þáttur kennslunnar í flestum námskeiðum. Tímasókn er ekki mjög mikil en heimavinna er umtalsverð og slíkt krefst sjálfstæðra og agaðra vinnubragða og gagnrýnnar hugsunar. Námsmat er af ýmsum toga: skrifleg og munnleg próf, framsaga í tímum, heimaverkefni. Umsóknarfrestur. Nánari upplýsingar í kennsluskrá. facebooklinkedintwitter