Skip to main content
5. apríl 2017

Nemendur veita flóttafólki ráðgjöf og stuðning

Fjöldi hælisleitenda og flóttafólks hefur aukist hratt hérlendis og flóttafólk þarf að takast á við ýmis verkefni í íslensku samfélagi sem geta reynst flókin. Háskóli Íslands hefur lagt áherslu á að leggja sitt af mörkum vegna aukins fjölda flóttafólks eins og sjá má t.d. á slóðinni https://www.hi.is/haskolinn/fraedi_og_fjolmenning.

Árið 2016 stóðu Mentor, félag félagsráðgjafarnema, og Orator, félag laganema, fyrir tilraunaverkefni um stuðning og ráðgjöf nemenda við flóttafólk í samvinnu við kennara við Félagsráðgjafar- og Lagadeild, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Stúdentaráð HÍ.  Auglýst var eftir nemendum úr báðum deildum og voru 14 nemendur, 7 úr hvorri deild, valdir til þátttöku í verkefninu. 

Markmið verkefnisins var í fyrsta lagi að styðja við flóttafólk bæði félagslega og við úrlausn ýmissa verkefna í daglegu lífi og greiða aðgang þess að íslensku samfélagi. Í öðru lagi var markmiðið að þjálfa nemendur í að sinna samfélagslegum verkefnum á sínu fagsviði og leggja þannig sitt af mörkum til stuðnings flóttafólki. Verkefnið hófst með stuttu námskeiði fyrir nemendur á vorönn 2016.

Nemendur unnu saman í teymum þannig að flóttafólkið sem tók þátt í verkefninu fékk bæði félagsráðgjöf og lagalega ráðgjöf. Kennarar og starfsfólk Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar voru bakhjarlar nemenda í verkefninu, veittu ráðgjöf og aðstoð eftir atvikum og hópurinn hittist einnig á sameiginlegum málstofum meðan á verkefninu stóð.

Nýsköpunarsjóður námsmanna veitti sumarið 2016 styrk til að vinna verkefni um réttarstöðu flóttafólks hér á landi ásamt því að gera úttekt á tilraunaverkefninu. Áslaug Björk Ingólfsdóttir laganemi vann verkefnið undir stjórn Brynhildar G. Flóvenz, dósents í Lagadeild.  Í rannsókninni var könnuð reynsla og upplifun þátttakenda í tilraunaverkefninu og hvaða lærdóm mætti draga af því. Niðurstöður verkefnisins voru kynntar á Þjóðarspegli 2016. Þá veitti Þróunarsjóður innflytjendamála styrk til verkefnisins.

Þann 17. mars 2017 voru síðan formleg lok verkefnisins þegar haldin var málstofa í Odda þar sem sagt var frá verkefninu og Áslaug Björk Ingólfsdóttir og Maja Loncar, sem báðar tóku þátt í verkefninu, gerðu grein fyrir upplifun sinni og reynslu auk þess sem Inga Sveinsdóttir, verkefnastjóri hjá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða fór yfir reynslu Reykjavíkurborgar af verkefninu. Var það samdóma álit þátttakenda að verkefnið hefði verið bæði gefandi og krefjandi og mikilvægt væri að þróa það áfram með tilliti til reynslunnar af tilraunaverkefninu. Í lokin var nemendum afhent skírteini til staðfestingar á þátttöku sinni í verkefninu.

Þátttakendur í tilraunaverkefninu og leiðbeinendur að lokinni málstofu sem markaði formleg lok þess.