Háskólamenntun lykill að samfélagi framtíðarinnar
Háskólar mynda í eðli sínu alþjóðlegt samfélag fræði- og vísindafólks sem helgar sig leitinni að hinu sanna og rétta, hefur mannhelgi að leiðarljósi og munu aldrei sætta sig við falsrök eða mismunun á grundvelli kyns, trúar, þjóðernis eða uppruna. Þetta sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, m.a. í ræðu sem hann flutti við brautskráningu 455 kandídata frá öllum 25 deildum Háskóla Íslands í Háskólabíói í dag.
Háskóli Íslands hefur verið í stöðugri sókn undanfarin ár á sviði rannsókna sem hefur tryggt honum sess á meðal fremstu háskóla heims samkvæmt viðurkenndum alþjóðlegum mælingum. Í ræðu sinni í dag vék Jón Atli að mikilvægi þeirra og nýsköpunar auk þess að fjalla um það árangursríka og öfluga samstarf sem Háskóli Íslands á við íslenskt atvinnulíf. Nýjasti ávöxturinn í því samstarfi er hugmyndahús sem verður hluti af Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni.
„Vísindagarðarnir eru þverfræðilegur samstarfsvettvangur atvinnulífs og Háskólans. Hugmyndahúsið, sem hlotið hefur hið táknræna nafn Gróska, mun hýsa hugbúnaðarfyrirtækið CCP auk þess sem þar verður glæsileg aðstaða fyrir sprotafyrirtæki og frumkvöðlasetur. Að baki Vísindagörðum Háskóla Íslands býr sú sannfæring að íslenska þjóðin geti ekki byggt framtíð sína alfarið á nýtingu náttúruauðlinda og frumframleiðslu heldur sé okkur lífsnauðsyn að hér dafni samfélag sem byggist á hugviti, þekkingu og frumleika,“ sagði Jón Atli, rektor Háskóla Íslands, í Háskólabíói í dag.
Í ávarpi sínu til kandídata fjallaði Jón Atli jafnframt um þær miklu sviptingar sem nú eiga sér stað í veröldinni. „Efnahagslegur óstöðugleiki, vaxandi flóttamannastraumur, aukin umhverfisvá vegna loftslagsbreytinga, misskipting auðs, upplausn siðferðilegra gilda og vaxandi þjóðernis- og einangrunarhyggja eru dæmi um málefni sem nú þegar setja mark sitt á daglegt líf okkar og munu væntanlega gera það í auknum mæli í framtíðinni.“
Jón Atli sagði að „háskólar mynda í eðli sínu alþjóðlegt samfélag fræði- og vísindafólks sem helgar sig leitinni að hinu sanna og rétta, hefur mannhelgi að leiðarljósi og mun aldrei sætta sig við falsrök eða mismunun á grundvelli kyns, trúar, þjóðernis eða uppruna.“
„Þegar upp er staðið er einn mikilvægasti ávinningur háskólanáms fólginn í því að öðlast tækifæri til að þroskast sem einstaklingar og verða betri manneskjur. En við háskólafólk hljótum líka að viðurkenna í auðmýkt að margir af erfiðustu lærdómum lífsins verða ekki numdir í skólum heldur í sjálfu umróti mannlífsins og í glímu við duttlunga náttúrunnar,“ sagði Jón Atli um leið og hann minntist tveggja ungmenna, þeirra Birnu Brjánsdóttur, sem var numin brott með voveiflegum hætti og svipt lífi, og Birgis Péturssonar sem fórst í snjóflóði í Esjunni fyrir skömmu. Birgir hafði skilað meistararitgerð sinni í byggingarverkfræði í Háskóla Íslands og hugðist brautskrást í dag.
Háskólarektor sagði að atvinnumarkaðurinn færi ekki varhluta af því mikla umróti sem einkenndi samtímann. „Ef að líkum lætur munu fjölmörg störf, sem við höfum gengið að sem vísum, hverfa og önnur, sem okkur hefur ekki órað fyrir fram til þessa, verða til. Við þurfum að spyrja okkur hvernig háskóli eigi að búa nemendur undir svo breyttan veruleika. Það er hollt að minnast þess að margar af þessum breytingum eru knúnar áfram af rannsóknum og uppgötvunum sem gerðar eru í háskólum – nýrri tækni, framsæknum sprotafyrirtækjum og upplýstum viðhorfum sem háskólarnir hafa fóstrað. Vísindaleg þjálfun og háskólamenntun er þannig lykill að samfélagi framtíðarinnar.“
Rektor sagði að háskólanám yrði í auknum mæli að miða að því að þjálfa nemendur til að hugsa um heildina og út fyrir landamæri einstakra fræðigreina því stærstu vandamál framtíðarinnar væru fæst bundin við einstakar fræðigreinar og verði því aðeins leyst með samstarfi vísindafólks af ólíkum sviðum. „Því er brýnt að efla samskiptahæfni, getu til að vinna saman í hópum, tungumálakunnáttu, menningarlegt læsi, frumkvöðlahugsun, siðferðilega dómgreind og gagnrýna hugsun. Þannig á háskólamenntun ekki eingöngu að gera ungu fólki kleift að laga sig að breytilegum þörfum atvinnu- og þjóðlífs heldur einnig og ekki síður að gera því fært að taka virkan þátt í að móta samfélagið sem þau eru hluti af til framtíðar með þekkingu sinni og hugdirfsku.“
Rektor Háskóla Íslands hvatti þá fjölmörgu sem brautskráðust í dag til dáða við nýja heimsmynd. Hann sagði að við yrðum öll að vera minnug þess að styrkur samfélagsins okkar réðist af því hvernig við kæmum fram við þá sem stæðu veikastir og höllustum fæti.
Lauk rektor máli sínu með því að vitna í texta nóbelskáldsins Bob Dylan við lagið Forever Young: „Megirðu vaxa úr grasi og verða réttsýnn / Megirðu vaxa úr grasi og verða sannur / Megirðu alltaf þekkja sannleikann / Og sjá ljósin allt í kringum þig. / Megirðu alltaf vera hugrakkur / Standa uppréttur og vera sterkur / Og megirðu verða / Ungur að eilífu.“