Tíðni kvenmorða, skráning og menningarleg áhrif
Þær Freydís Jóna Freysteinsdóttir, dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, og Halldóra Gunnarsdóttir, kynjafræðingur á mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, taka þátt í evrópsku COST-verkefni um kvenmorð. Á dögunum birtu þær grein um verkefnið í Fréttablaðinu og á Visir.is. Greinina má lesa hér að neðan.
Ofbeldi er dauðans alvara
Kvenmorð (e. femicide) eiga sér stað um allan heim. Hugtakið er skilgreint með þeim hætti að rekja megi morðið til kynferðis, þ.e. kona er myrt vegna þess að hún er kona. Í vestrænum ríkjum er yfirleitt um að ræða morð í nánum samböndum en kvenmorð geta tekið á sig aðrar birtingarmyndir, dæmi um það eru kynferðisglæpir, svokölluð „heiðursmorð“, morð tengd heimanmundi, þvinguð sjálfsmorð og kerfisbundin eyðing kvenkynsfóstra. Hér í okkar fámenna landi deyr kona af völdum kynbundins ofbeldis u.þ.b. þriðja hvert ár.
Með því að nota hugtakið kvenmorð og greina það sérstaklega er ekki verið að gera lítið úr mannsmorðum heldur er verið að undirstrika að eðli eða forsaga þeirra er oft önnur en mannsmorða. Í sumum samfélögum þarf að breyta ríkjandi viðhorfum og í öðrum tilvikum hafa mörg viðvörunarflögg farið á loft áður en morðið er framið og því má færa fyrir því rök að hægt hefði verið að koma í veg fyrir það. Kvenmorð, eins og mannsmorð, valda fjölmörgum miklu sálartjóni, bæði fjölskyldu og vinum þess sem er myrt/myrtur og fjölskyldu og vinum þess sem myrðir.
En hvað er það sem einkennir kvenmorð? Þau geta vissulega átt sér stað í öllum stéttum samfélagsins óháð menntun. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt að að gerendur í slíkum málum eru líklegir til að hafa brotið af sér áður, vera með litla menntun, atvinnulausir, með persónuleikaröskun og eiga við áfengisvanda eða annan vímuefnavanda að stríða. Nokkuð er um að þeir séu mjög afbrýðisamir og afar stjórnsamir. Það að karlmaðurinn hafi beitt konuna líkamlegu ofbeldi áður, verið með hótanir um slíkt ofbeldi eða hafi beitt hana andlegu ofbeldi er besti forspárþátturinn um kvenmorð. Konur eru í sérstaklega mikilli hættu þegar þær yfirgefa maka sem hafa beitt þær ofbeldi. Í slíkum aðstæðum er félagslegur stuðningur gríðarlega mikilvægur þeim til að byggja upp líf sitt. Að setja á nálgunarbönn og gæta þess að þeim sé framfylgt er einnig afar mikilvægt fyrir öryggi kvenna í slíkum aðstæðum.
Umfang vandans sé ljóst
Höfundar þessarar greinar eru meðlimir í evrópsku Cost verkefni um kvenmorð. Í því verkefni er verið að kanna tíðni þeirra, rýna hvort þau eru skráð og þá hvernig, hver áhrif menningar eru á kvenmorð og hver viðbrögð samfélagsins eru við þeim. Endanlegt markmið verkefnisins er að finna leiðir til að fyrirbyggja að kvenmorð eigi sér stað. Í því samhengi er mikilvægt að skoða hvaða leiðir virka og hvað ekki. Einnig er afar mikilvægt að skrásetja kvenmorð þannig að umfang vandans sé ljóst til að brugðist sé við honum. Á Íslandi er gögnum um kvenmorð ekki safnað sérstaklega og þær upplýsingar ekki að finna í útgefnum gögnum ríkislögreglustjóra. Það er mikilvægt að breyta þessu þannig að umfang vandans sé ljóst því þá er frekar við honum brugðist.