Skip to main content

Inntökuskilyrði í BS-nám í hjúkrunarfræði

Til að hefja nám við Hjúkrunarfræðideild skulu nemendur hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi frá erlendum skóla. Þá nægir lokapróf frá verk- og raunvísindadeild Keilis (háskólabrú) til inngöngu í Hjúkrunarfræðideild. Nemendur sem lokið hafa aðfararnámi að öðrum háskólum en Háskóla Íslands geta sótt um undanþágu frá þessum inntökuskilyrðum. 

Undirbúningur fyrir hjúkrunarfræði

Æskilegur undirbúningur samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla 2011 er: 3. hæfniþrep í íslensku, ensku og stærðfræði. Auk þess er mælt með því að stúdent hafi lokið 10 fein á 3. þrepi í efnafræði og/eða stærðfræði og 5 fein á 3. þrepi í líffræði. 

Hjúkrunarfræði felur í sér náin samskipti og vinnu með fólki og leggur því áherslu á greinar sem auka skilning nemenda á manninum, eiginleikum hans og starfsemi. Góður undirbúningur í íslensku, ensku og stærðfræði er mikilvægur. Þeim sem ekki hafa góða undirstöðu í efnafræði er bent á námskeiðið Aðfaranám í almennri efnafræði hjá Endurmenntun Háskóla Íslands sem alla jafna er haldið í ágústmánuði.

Samkeppnispróf

Samkeppnispróf eru haldin í desember ár hvert, í fyrsta sinn á haustmisseri 2019, og miðast fjöldatakmörkun við 120 nemendur. Framkvæmd fjöldatakmörkunar er þannig:

  • Nemendum sem standast öll samkeppnispróf, þ.e. próf í öllum námskeiðum haustmisseris á 1. ári BS-náms, er raðað eftir veginni meðaleinkunn, frá þeirri hæstu til þeirrar lægstu, og er 120 nemendum með hæstu meðaleinkunnirnar boðið námspláss á vormisseri næsta árs.
  • Ef færri en 120 nemendur ná öllum samkeppnisprófum er nemendum sem hafa fallið í einu prófi raðað eftir veginni meðaleinkunn, frá þeirri hæstu til þeirrar lægstu, og þeim nemendum sem hlotið hafa hæsta meðaleinkunn boðið námspláss á vormisseri 1. námsárs, þar til náð hefur verið þeim fjölda nemenda sem fjöldatakmörkun kveður á um.
Tengt efni