Varði doktorsritgerð um stærðfræðikennslu
Jónína Vala Kristinsdóttir hefur varið doktorsritgerð sína í menntavísindum, Námssamfélag um stærðfræðikennslu: Að þróa samvinnurannsókn um kennslu í grunnskóla og kennaramenntun, við Uppeldis- og menntunarfræðideild Háskóla Íslands.
Andmælendur við doktorsvörn Jónínu voru Simon Goodchild, prófessor við Háskólann í Agder, Noregi, og Tom Russell, prófessor við Queens háskóla í Ontario, Kanada. Aðalleiðbeinandi var Allyson Macdonald, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og meðleiðbeinandi var Barbara Jaworski, prófessor við Loughborough-háskóla, Englandi. Auk þeirra sat í doktorsnefnd Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Ólafur Páll Jónsson, prófessor og deildarforseti Uppeldis- og menntunarfræðideildar við Menntavísindasvið, stjórnaði athöfninni sem fram fór þann 11. nóvember í Skriðu við Stakkahlíð.
Um efni rigerðarinnar
Megintilgangur rannsóknarinnar var að afla þekkingar og öðlast skilning á starfsþróun kennara sem endurskoða stærðfræðikennslu sína. Rannsóknin er í tveimur hlutum. Fyrri hlutinn er rannsókn kennara á sviði stærðfræðimenntunar á eigin starfi þar sem sjónum var beint að því hvernig gagnrýnin ígrundun á eigin skilningi á námskenningum hafði áhrif á og mótaði seinni hluta rannsóknarinnar. Í síðari hlutanum var aðferðafræði þróunarrannsókna (e. developmental research) beitt við að rannsaka þriggja ára þróunarferli þar sem sjö grunnskólakennarar, í tveimur grunnskólum, unnu með rannsakanda að því að greina stærðfræðikennslu frá mismunandi sjónarhornum. Meginmarkmiðið var að kanna hvernig kennarar og kennari í stærðfræðimenntun unnu saman að því að rannsaka eigið starf og með hvaða hætti samvinnan hafði áhrif á starf þeirra. Stefnt var að því að bera kennsl á leiðir til að styðja kennara við að mæta þörfum ólíkra nemenda við stærðfræðinám og öðlast skilning á hvernig nýta megi þær við að bæta kennaramenntun.
Meginniðurstöður eru þær að kennarar í grunnskóla og kennaramenntun þróuðu með sér námssamfélag þar sem samvinnurýni var beitt við að ígrunda ólíkan skilning á stærðfræðinámi og -kennslu. Leyst var úr ágreiningi um árangursríkar leiðir við stærðfræðinám með því að skoða og ígrunda fjölbreyttar námsleiðir barna. Þátttakendur skerptu skilning sinn á hvernig tryggja megi aðgengi ólíkra nemenda að stærðfræði með því að ræða vandamál sem upp komu í kennslustundum þeirra. Niðurstöðurnar benda til þess að með stuðningi við að rannsaka eigin kennslu eflist kennarar í að þróa stærðfræðikennslu sína og skapa námssamfélag þar sem nemendur læra stærðfræði á rannsakandi hátt. Þær renna stoðum undir að gefa þurfi kennurum tækifæri til valdeflingar og þátttöku í menntarannsóknum. Þannig nýtist sérfræðiþekking þeirra á skólastarfi við að þróa árangursríkar leiðir til að bæta það.
Um Jónínu
Jónína Vala Kristinsdóttir (f. 1952) er lektor við Kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Viðfangsefni hennar í starfi og rannsóknum tengjast aðallega stærðfræðimenntun, kennslufræði og kennaraþróun. Jónína lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands, prófi í uppeldisfræði frá Uppsala Háskóla, og M.Ed. í uppeldis- og menntunarfræðum frá Kennaraháskóla Íslands.
Jónína Vala er gift Gylfa Kristinssyni stjórnmálafræðingi. Þau eiga börnin Margréti Völu, Kristin Björgvin og Auði Sesselju og fjögur barnabörn, þá Róbert Gylfa, Tómas Diðrik, Kolbein Viðar og Matthías Baldvin.