Tilraun um þekkingarmiðlun í hlaðvarpi
Hlaðvarpið „Flimtan og fáryrði“ hefur lokið göngu sinni, en 24. þátturinn og sá síðasti var birtur í dag. Hlaðvarpið, sem hóf göngu sína í sumar, er „í léttum dúr“ og fjallar um íslenskar bókmenntir fyrri alda frá ýmsum sjónarhornum. Meðal annars hefur verið rætt um hörundsára konunga, prestsfrúr með hnífa, huglausa smaladrengi, þýska heimspekinga og enska glamúrtímaritið Hello.
Ármann Jakobsson, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda, og Gunnlaugur Bjarnason íslenskufræðingur sáu um hlaðvarpið og fengu til sín eina átta gesti. Að þeirra sögn byggjast flestir þættirnir á einni eða fleiri vísindagrein sem birst hafa í ýmsum tímaritum hér heima og erlendis og þannig hefur verið um að ræða tilraun til að miðla fræðilegri þekkingu í hlaðvarpi í léttum dúr. Hlaðvarp komi sér vel á tímum rafrænnar kennslu og geti fyllt í ýmsar eyður og ef til vill stutt við nýja kennsluhætti.
Þeir segja að hlustendur sem hlýði á alla þættina fari í gegnum eins konar námskeið þar sem þeir öðlist mikilvæga innsýn í fræðilega umræðu um íslenskar miðaldabókmenntir. En einnig megi nálgast áheyrnina sem skemmtun og afþreyingu. Þannig geti afþreying og menntun farið saman, eins og raunar í sjálfum fornsögunum. Spurðir að því hvort áhugasamir megi búast við fleiri þáttum í framtíðinni segja þeir Ármann og Gunnlaugur að orðrómur sé á kreiki um sérstakan jólaþátt í desember.