Skip to main content
22. ágúst 2022

Sveppum safnað á fimmtudag í Heiðmörk

Sveppum safnað á fimmtudag í Heiðmörk - á vefsíðu Háskóla Íslands

Langar þig að þekkja góða sveppi frá þeim vondu? Þá ættirðu að koma í sveppaferð í Heiðmörk fimmtudaginn 25. ágúst með Háskóla Íslands, Ferðafélagi Íslands og Náttúruminjasafni Íslands. Núna er nefnilega tíminn – sveppatíminn. 

Sveppir eru algert sælgæti og það sem er einna skemmtilegast við þá – þeir vaxa villtir í íslenskri náttúru og ekki síst í skóglendi eins og í Heiðmörk. Það er hins vegar afar mikilvægt að þekkja þá ætu og sniðganga þannig þá vondu og sumir sveppir geta verið eitraðir. 

Í þetta skiptið fáum við bæði sérfræðinga frá Náttúrminjasafni Íslands og HÍ til að leiða fólk um auðlindir Heiðmerkur en þau Ragnhildur Guðmundsdóttir, líffræðingur og safnkennari frá Náttúruminjasafninu, og Gísli Már Gíslason, prófessor emeritus í líffræði við Háskóla Íslands og fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands, taka vel á móti göngufólki ásamt fríðu föruneyti sérfræðinga frá báðum stofnunun. Auk þess verður fólk frá Ferðafélagi Íslands á staðnum og leiðbeinir líka göngufólki.  

Mæting er kl. 17 á einkabílum á bílastæði við Rauðhóla. Haldið verður í halarófu frá bílastæðinu lengra inn í Heiðmörkina og ætla má að ferðin í heild sinni taki um tvær klst. Þau Ragnhildur og Gísli Már hvetja fólk til að koma með körfur eða ílát undir fenginn en þau hafa bæði mikla reynslu af miðlun. Gísli Már hefur verið kennari við HÍ í áraraðir og Ragnhildur hefur tekið þátt í fræðsluferðum sem þessum en hún er bæði með BS-gráðu og doktorsgráðu í líffræði frá Háskóla Íslands auk diplómagráðu í kennslufræði.

Ætir sveppir eru út um allt

„Um 2.100 tegundir sveppa er skráðar á Íslandi og á hverju ári bætast við nýjar tegundir í þennan sérstaka flokk lífvera,“ segir Gísli Már og bætir því við að sumar sveppategundir hafi m.a. flust hingað með trjátegundum því margar þeirra eigi sveppi sem sambýlisveru, t.d. lerki og fura.

Að Gísla sögn getur það reynst flókið að finna æta sveppi því um tvö þúsund sjálfstæðar tegundir sveppa og sjö hundruð tegundir fléttna vaxa á Íslandi. „Fléttur eru sambýli svepps og þörunga. Af allri þessari fungu eru aðeins um 30 tegundir sveppa ætar á Íslandi og bragðast vel. Þar af eru aðeins rúmlega tíu borðaðar reglulega. Sumar flétturnar eru einnig ætar, þar á meðal fjallagrös og hreindýramosi.“

Sveppir eru algert sælgæti og það sem er einna skemmtilegast við þá – þeir vaxa villtir í íslenskri náttúru og ekki síst í skóglendi eins og í Heiðmörk. Það er hins vegar afar mikilvægt að þekkja þá ætu og sniðganga þannig þá vondu og sumir sveppir geta verið eitraðir. 

Hægt er að finna æta sveppi um land allt og því má reikna með að vel beri í veiði á fimmtudag í Heiðmörkinni sem er kjörlendi fyrir sveppi en sveppir þrífast alla jafna vel nálægt trjágróðri. „Bestu sveppasvæðin landsins eru á Vesturlandi, í Borgarfirði, á Snæfellsnesi og Vestfjörðum en þar má finna kóngssveppi og kantarellur,“ segir Gísli Már. 

Má bjóða þér upp á steikta fótgímu – eða kannski slímgump?

Sveppir bera margir ansi ógirnileg nöfn. Fótgíma og slímgumpur eru þannig ekki alveg með heppilegasta heitið fyrir matardiskinn en Gísli Már segir að þessir tveir séu gómsætir sveppir. „Svo má kannski finna gulltoppu, sem er eitruð,“ segir Gísli Már, „og líka lerkisveppi, gullbrodda og sortukúlu.“

Í ferðinni í Heiðmörk á fimmtudag verður ekki bara sveppunum safnað því fróðleikur um verkun og eldun fylgir með. 

Þátttakendur eru eins og áður sagði hvattir til að taka með sér sveppabækur og ílát fyrir sveppina en gangan er hluti af áralöngu samstarfi  Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti.“ Það hefur hefur staðið frá aldarafmæli skólans árið 2011. 

Gísli Már og gestir í sveppaferð