Sérhefti Stjórnmála & stjórnsýslu helgað valdi og lýðræði
Vald og lýðræði á Íslandi er meginþemað í sérhefti tímaritins Stjórnmála & stjórnsýslu sem kemur út í vefútgáfu fimmtudaginn 31. maí nk. Sama dag kl. 13:00-17:00 verður haldin útgáfuráðstefna í Háskóla Íslands þar sem höfundar kynna efni greina sinna.
Sérheftið hverfist um hina svokallaðri valds- og lýðræðisrannsókn Félagsvísindasviðs sem staðið hefur yfir undanfarin ár og beinist að megingerendum í valds- og lýðræðiskerfum íslensks samfélags, svo sem að löggjafanum, framkvæmdavaldinu, stjórnsýslunni, stjórnmálaflokkum, hagsmunasamtökum, fjölmiðlum og almenningi. Rannsóknarstjóri verkefnisins er Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, en um 30 fræðimenn og nemar hafa komið að verkefninu. Forvitnast má frekar um það á heimasíðu þess.
Í tilefni þess að það hillir undir lok verkefnisins mun tímaritið Stjórnmál & stjórnsýsla gefa út sérhefti í vefútgáfu 31. maí nk. á www.irpa.is. Það samanstendur af 10 ritrýndum greinum á ensku sem allar taka á þáttum sem snerta vald og lýðræði í íslensku samfélagi. Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, er sérstakur gestaritstjóri sérheftisins en útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.
Sem fyrr segir verður efnt til útgáfuráðstefnu 31. maí sem fer fram í stofu 101 í Odda kl. 13:00-17:00. Kynningar fara fram á íslensku. Allir eru velkomnir að koma og hlýða á kynningarnar og taka þátt í fyrirspunum og umræðum að kynningu lokinni.
Yfirlit yfir greinar sérheftisins:
Íslenska valdakerfið: yfirlit og endurmat. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ.
Íslensk stjórnmál í ljósi lýðræðiskenninga. Vilhjálmur Árnason, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild við HÍ.
Fokið í flest skjól: Staða Íslands í alþjóðasamfélaginu. Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ.
Sjálfstæð eða sameinuðu: Rökræða um hlutverk íslenskra sveitarfélaga í ljósi sögulegra stofnanakenninga. Eva Marín Hlyndsóttir, lektor við Stjórnmálafræðideild HÍ.
Pólitískir klofningsásar, tengsl kjósenda og stjórnmálaflokka og áhrif félags- og efnahagslegrar stöðu á kosningahegðun á Íslandi frá 1983 til 2016/17. Eva H. Önnudóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild og Ólafur Þ. Harðarson, prófesor við Stjórnmálafræðideild HÍ.
Pólitík margbreytileikans: Félagslegt og pólitískt aðgengi innflytjenda á Íslandi. Þorgerður Einarsdóttir, Professor, prófessor í kynjfræði við Stjórnmálafræðideild, Thamar M Heijstra, lektor við Félags- og mannvísindadeild og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísinda-deild HÍ.
Hlutverk þings við skilyrði ráðherraræðis. Indriði H. Indriðason, prófessor í stjórnmálafræði við University of California – Riverside, og Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ.
Opinberar nefndir og samráðskerfi (korporatismi): Samanburður á Íslandi og Skandinavíu. Stefanía Óskarsdóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild HÍ.
Íslenskir fréttamiðlar á tímum umróts og breytinga. Valgerður Jóhannsdóttir, aðjunkt við Stjórnmálafræðideild HÍ og doktorsnemi við Roskilde University, og Jón Gunnar Ólafsson, aðjunkt og doktorsnemi við Goldsmiths, University of London.
Árangur eða pólitík? Þróun pólitísks trausts á Íslandi í kjölfar hrunsins. Sjöfn Vilhelmsdóttir, doktorsnemi við Stjórnmálafræðideild, og Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ.