Samstarf við Coimbra-háskóla í Portúgal á sviði kynjajafnréttis
Fulltrúar frá Háskólanum í Coimbra í Portúgal heimsóttu Háskóla Íslands 3-4. maí sl. Heimsóknin er hluti af Gender@UC verkefninu sem er samstarf skólanna á sviði kynjajafnréttis og fjármagnað af uppbyggingarsjóði EES en markmið hans er að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Háskólinn í Coimbra hefur nýlega hafið formlegt jafnréttisstarf og í heimsókninni voru helstu áherslur og þróun jafnréttisstarfs innan Háskóla Íslands kynnt fyrir portúgölsku gestunum. Eftir fund með rektor og aðstoðarrektor vísinda fundaði hópurinn með aðilum innan skólans sem eru í forsvari fyrir ýmsa þætti jafnréttisstarfs, svo sem formanni jafnréttisnefndar háskólaráðs, jafnréttisfulltrúum, fræðafólki á sviði kynjafræða, fulltrúum stúdenta og starfskonu Spretts en það er verkefni sem styður og undirbýr nemendur með innflytjendabakgrunn fyrir háskólanám.
Innan Coimbra-háskóla er ekki einungis lögð áhersla á kynjajafnrétti heldur einnig aðkomu og framgang kvenna í vísindum. Þar er enn fremur unnið markvisst að miðlun vísinda og vísindauppeldi og í því skyni að efla samstarf og tengsl heimsótti hópurinn Vísindasmiðjuna og fundaði með sérfræðingum Háskólans í markaðs- og kynningarmálum.
„Enda þótt hlutverk Háskóla Íslands sé að styðja við jafnréttisstarf Coimbra er samstarfið mjög gefandi fyrir okkur líka þar sem samtalið kveikir alltaf nýjar hugmyndir og skerpir sýn okkar á eigin störf,“ segir Þorgerður J. Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði, sem leiðir verkefnið fyrir hönd HÍ. Fyrir portúgalska hópnum fer Cláudia Cavadas, prófessor í lyfjafræði og aðstoðarrektor vísinda við Coimbra-háskóla. Á meðan heimsókninni stóð hélt Claudia erindi á Miðstöð lýðheilsuvísinda og hitti doktorsnema á sínu fræðasviði.