Risastyrkir til loftslagsverkefna
Háskóli Íslands og Orkuveita Reykjavíkur í samstarfi við erlendar vísindastofnanir hafa fengið tvo styrki samtals að fjárhæð 12,2 milljónir evra frá Evrópusambandinu til þróa áfram bindingu koltvíoxíðs sem grjót. Fjárhæðin sem samstarfsaðilarnir hljóta til verkefnanna svarar til liðlega eins og hálfs milljarðs króna.
Nýsköpunarverkefnin, sem hófust árið 2007, hafa þegar leitt til verulegs samdráttar í losun jarðhitalofts frá Hellisheiðarvirkjun. Níu doktorsnemar hafa varið ritgerðir sínar um kolefnisbindingu í bergi og starfa við rannsóknir hér heima og erlendis. Fram undan er meðal annars að þróa bindingu koltvíoxíðs á sjávarbotni. Styrkinir, sem dreifast á fjölda samstarfsaðila, eru mikil viðurkenning og auka vægi verkefnanna í baráttunni við loftslagsvandann.
Gas í grjót
Frá árinu 2007 hafa vísindamenn í samstarfi við iðnaðar- og tæknifólk Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjanna Orku náttúrunnar og Veitna unnið að þróun og prófun þeirrar hugmyndar að hægt sé að taka koltvíoxíð sem kemur upp með jarðhitavökvanum við nýtingu hans, blanda það vatni og dæla því aftur niður í jörðina þaðan sem það kom. Þar bindist það varanlega á formi steinda. Rannsóknir sýna að sú aðferð hefur heppnast vel. Sama aðferð er nú nýtt til að hreinsa brennisteinsvetni úr útblæstrinum og er nú um 60% þess sem upp kemur bundið sem steindir í basaltberglögum djúpt í jörðu í grennd virkjunarinnar. CarbFix er heitið á upphaflega þróunarverkefninu með koltvíoxíð. SulFix er heitið sem brennisteinsverkefnið fékk og einu nafni ganga þau undir heitinu Gas í grjót.
Vegna þess að þær aðferðir sem þróaðar hafa verið til að binda jarðhitaloftið í basaltlögunum eru vatnsfrekar og að mikil basaltberglög er að finna á hafsbotni beina vísindamenn í verkefninu nú sjónum að bindingu koltvíoxíðs í sjávarbotni.
Fólkið sem leiðir gas í grjót
- Sigurður Reynir Gíslason - Háskóli Íslands
- Edda Sif Pind Aradóttir - OR og ON
- Eric Oelkers - CNRS (Rannsóknarráð franska ríkisins)
- Fidel Grandia - Ráðgjarfyrirtækið Amphos 21 í Barcelona
Forsíðuumfjöllun í EARTH
CarbFix-verkefnið hefur vakið heimsathygli síðustu misseri, sérstaklega eftir að grein um það birtist í Science, einu virtasta vísindatímariti heims, um mitt síðasta ár. Erlendir fréttamiðlar og sjónvarpsstöðvar hafa gert sér ferðir hingað til að flytja fréttir eða vinna heilu þættina um verkefnið.
Nýjasta dæmið um alþjóðlega umfjöllun um verkefnið er að finna í júlítölublaði alþjóðlega jarðvísindatímaritsins EARTH. Þar prýðir Hellisheiðarvirkjun forsíðuna. Gas í grjót er í brennidepli og það sett í samhengi við önnur rannsóknar- og þróunarverkefni með sömu markmið. Rætt er við þau Eddu Sif verkefnisstjóra og Sigurð Reyni Gíslason, vísindamann við Jarðvísindastofnun Háskólans, sem fer fyrir vísindaráði verkefnisins.