Skip to main content
27. júní 2023

Risaráðstefna um málefni Evrópu í Háskóla Íslands

Risaráðstefna um málefni Evrópu í Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ein fjölmennasta ráðstefna sem haldin hefur verið í Háskóla Íslands fer fram á háskólasvæðinu dagana 27.-29. júní en hana sækja hátt í 1.500 manns hvaðanæva úr heiminum. Ráðstefnan er á vegum The Council for European Studies (CES) og er helguð rannsóknum tengdum Evrópu samtímans á afar breiðum grunni, þar á meðal innrás Rússa í Úkraínu.

Ráðstefnan ber heitið International Conference of Europeanists og er nú haldin í 29. sinn. Yfirskrift hennar að þessu sinni er Fortíð, nútíð og framtíð Evrópu: Fyrirmyndarríki eða helvíti (e. Europe’s Past, Present, and Future: Utopias and Dystopias). Ráðstefnan er sú fjölmennasta sem CES hefur haldið hingað til.

Ráðstefnuna sækja fræðimenn á sviði félags- og hugvísinda víða að úr heiminum. Á mál- og vinnustofum hennar verður m.a. fengist við málefni innflytjenda og flóttamanna, öryggismál, húsnæðismál, jafnréttismál, stjórnarskrár, þjóðernishyggju og stríðið í Úkraínu, svo fátt eitt sé nefnt. Ráðstefnan fer fram víða á háskólasvæðinu en meginþungi hennar verður í Háskólabíói. 

Tveir lykilviðburðir fara fram í tengslum ráðstefnuna. Annar þeirra fer fram í dag, þriðjudaginn 27. júní, kl. 18-20 í Háskólabíói og ber heitið „In Europe, Where You Stand Depends on Where You Sit. Presidents and Academics, Nationalism and Objectivity“. Þar mun Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ávarpa gesti, og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytja lykilerindi. Auk þess mun Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði og einn af aðalskipuleggjendum ráðstefnunnar, ávarpa ráðstefnugesti og grínistinn Ari Eldjárn slær svo botn í dagskrána.

Hinn lykilviðburðurinn fer fram miðvikudaginn 28. júní kl. 18-19.45 og ber heitið „Ukraine’s Past, Present, and Future: Utopias and Dystopias“. Um er að ræða pallborð sem Úkraínuverkefni HÍ stendur að og eins og nafnið bendir til verður innrás Rússa í Úkraínu í brennidepli. Þátttakendur í pallborði verða þau Milada Anna Vachudova, prófessor við University of North Carolina - Chapel Hill, Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, Marina Shevstova, fræðimaður við KU Leuven og Háskólann í Ljubljana í Slóveníu, og Maryna Rabinovych, fræðimaður við Háskólann í Ögðum í Noregi. Fundarstjóri er Urður Gunnarsdóttir.

Dagskrá ráðstefnunnar í heild sinni má finna hér

Um CES

The Council for European Studies (CES) eru samtök fræðimanna sem fást við rannsóknir tengdar Evrópu á fjölbreyttum sviðum. Samtökin voru stofnuð fyrir rúmum 50 árum í Bandaríkjunum og aðild að þeim eiga yfir 1.500 fræðimenn þar í landi, Evrópu og víðar. Innan samtakanna eru starfandi rannsóknarnet á ólíkum fræðasviðum. Auk þess að standa fyrir árlegri ráðstefnu og smærri viðburðum gefa samtökin út tímaritið EuropeNow, sem helgað er nýjustu straumum og stefnum tengdum listum, menningu, samfélagi og stjórnmálum. 
 

""